Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur tilkynnti á þriðjudag um framboð sitt til formennsku í Sjómannafélagi Íslands. Heiðveig hefur verið ötull talsmaður sjómanna í kjarabaráttu þeirra.

Á facebook síðu sinni segir Heiðveig María meðal annars. “Eftir sjómannaverkfallið 2017 var ítrekað skorað á mig að bjóða mig fram til forystu og hugleiddi ég það af mikilli alvöru. Á sama tíma hef ég hvatt Sjómannafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands til að láta verkin tala en upplifað þögn.

Eftir að ég skilaði sjálf inn umsögn um Veiðigjaldafrumvarp Ríkisstjórnarinnar í gær hefur pósthólfið mitt fyllst af hrósi, hvatningu, áhuga og áskorunum til forystu og hef ég því tekið þá stóru ákvörðun að bjóða mig fram til formanns fyrir Sjómannafélag Íslands. Ég vil í framhaldi af þessari ákvörðun örva umræðu meðal sjómanna og kalla á sama tíma eftir áhugasömu fólki til að vinna að og móta stefnu framboðsins”.

 

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Mynd: úr einkasafni