“Mér finnst mikilvægt að standa vörð um þá góðu heilbrigðisþjónustu sem við höfum hér í Fjallabyggð en auka jafnfram þjónustu við aldraða og þá sér í lagi heimaþjónustu með því að bæta samstarf sveitarfélagsins og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Einnig finnst mér brýnt að aldraðir fái bætta hreyfingu með fríum aðgangi að líkamsrækt og sundi. Þá þarf að bæta verulega aðstöðu skjólstæðinga og starfsfólks Hornbrekku.“ Konráði finnst einnig að sveitarfélagið ætti að hvetja til byggingu ódýrs og hagkvæms húsnæðis og koma til móts við húsbyggjendur með því t.d. að dreifa gatnagerðargjöldum yfir viðráðanlegan tíma.

Konráð er fæddur 15. apríl 1946 á Siglufirði. Hann á ættir að rekja til Skagafjarðar og Svarfaðardals. Hann er kvæntur Erlu Hafdísi Ingimarsdóttur og eiga þau Elsu Ingu 51 árs, Baldvin Örn 48 ára og einnig þrjú barnabörn.

Konráð er lærður húsasmíðameistari og rak byggingafyrirtæki og verslun í Siglufirði áður en hann fór í nám í iðn- og byggingarekstrarfræði í Tækniskóla Íslands. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri rekstrarfélags Mjóddar í Reykjavík áður en hann kom aftur norður og varð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar (síðar Fjallabyggðar). Einnig starfaði hann sem forstjóri Heilsugæslu Dalvíkur um tíma. Síðustu ár hefur Konráð starfað að ýmsum verkefnum í byggingaiðnaði s.s. sem byggingastjóri Sigló Hótels.

Árin 1982-1986 var Konráð varabæjarfulltrúi og sat í ýmsum nefndum fyrir bæinn.

Heilsurækt sem eykur þol og styrk s.s. fjallgöngur, hjólreiðar og sund er Konráði hugleikin og leggur hann mikla áherslu á að leggja inn í heilsubankann þegar aldurinn færist yfir.

Frétt fengin af facebooksíðu: Betri Fjallabyggðar