Helgi Jóhannsson skipar 3. sæti H-Listans, Fyrir heildina í Fjallabyggð. Helgi Jóhannsson er þjónustustjóri í Arion banka í Fjallabyggð.

“Ég er giftur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni, og eigum við þrjú börn, Tímon Davíð 35 ára, Klöru Mist 30 ára og Jódísi Jönu 19 ára og ekki má gleyma hundinum á heimilinu, tíkinni Mirru. Við búum að Hlíðarvegi 71 í Ólafsfirði. Ég er 53 ára og hef búið alla mína ævi í firðinum fagra fyrir utan 9 mánuði í Kópavogi. Ég starfaði hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar frá árinu 1983 og síðar Arion banka þegar þessar tvær fjármálastofnanir sameinuðust.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á bæjarmálum og þá helst umhverfismálum og var formaður umhverfisnefndar í Ólafsfirði 2002-2005 og varabæjarfulltrúi.

Ég hef alltaf þurft að hafa eitthvað fyrir stafni, það getur verið stutt á milli ofvirkni og að vera duglegur. En ég hef komið að uppbyggingu á tveimur veitingastöðum og gistihúsi, Höllinni, Kaffi Klöru og Gistihúsi Jóa í hjáverkum. Mér finnst mikilvægt að maður reyni að láta gott af sér leiða því samfélagi sem maður býr, mér finnst ég hafa reynt að gera það.

Ég er í stjórn Fjallasala ses. en það félag stendur að Pálshúsi í Ólafsfirði en þar hefur verið komið upp náttúrugripasafni og þá aðallega fuglasafni og stór hluti framkvæmda unnin í sjálfboðavinnu. Ég sat í stjórn MTR frá stofnun hans 2010 og fram til ársins 2017 og gengdi formennsku í þrjú ár.

Frá því í fyrrasumar hef ég verið að vinna í að gera upp gamlan trébát, Freymund ÓF, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður, og búinn að læra heilmikið á því, en hann verður vonandi fyrsti vísir af sögu smábátaútgerðar hér í Ólafsfirði og til stendur að setja hann upp til sýnis í miðbænum á Ólafsfirði til að byrja með.

Helstu áhugamálin eru umhverfismál og náttúran og í okkar samfélagi getum við gert svo miklu betur í þeim efnum. Einnig er knattspyrna mér ofarlega í huga, í ensku knattspyrnunni er Liverpool liðið. Draumurinn er svo að koma upp kláferju uppá Múlakollu, stórt verkefni og spennandi. Náði þeim áfanga að koma kláfnum inná aðalskipulag fyrir Fjallabyggð, fyrsta skrefið í langri göngu.

Það líður ekki dagur svo ég ekki fái einhverja hugmynd um hvað væri hægt að gera í Ólafsfirði og Fjallabyggð. Nú vil reyna að leggja mitt að mörkum og láta þessar og aðrar hugmyndir verða að veruleika í sveitarfélaginu okkar, þess vegna býð ég mig fram við þessar sveitarstjórnakosningar.”

Frétt fengin af facebooksíðu: H-Listans