Tónlistarhátíðin Berjadagar hófst í gær fimmtudaginn 1. ágúst í Ólafsfirði. Hátíðin er haldin í tuttugasta og fyrsta sinn og hófst með kraftmiklu upphafskvöldi.
Kvöldið hófst með íslenskum þjóðlögum og hljóðfæraslætti Spilmanna Ríkínís í Ólafsfjarðarkirkju. Því næst röltu gestir yfir í hljómleikasal Menningarhússins þar sem haldið var áfram inn í norðlenska nótt með heimamönnunum Guito og Rodrigo sem leiða brasilíska hljómsveit Berjadaga.
Hljómsveitin Brasilískt er skipuð þeim Femke Smit frá Hollandi, Rodrigo Guito Thomas, Rodrigo Lopes og Stefáni Daða Ingólfssyni. Fjölmenni var á konsertinum og var flytjendum vel fagnað í lokin enda eru þeir tónlistarmenn í fremstu röð og mikill fengur fyrir tónlistarlífið í Fjallabyggð af þeim Guito og Rodrigo.
Myndir: Björn Valdimarsson og Guðný Ágústsdóttir