Stjórnvöld hafa þegar framkvæmt eða hafið undirbúning fjölmargra aðgerða sem tengjast þeim málaflokkum sem settir voru fram í kröfum kvennaárs 2024. Áhersla hefur verið lögð á endurmat á virði kvennastarfa, baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og að auka vernd brotaþola.
„Fyrir fimmtíu árum lögðu íslenskar konur niður störf og vöktu athygli á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Þetta var sögulegur dagur. Hálfri öld síðar getum við verið hreykin af árangrinum en megum þó ekki hrósa sigri enn. Við ætlum í markvissar aðgerðir og þannig halda baráttunni áfram, skref fyrir skref,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála.
Í bréfi framkvæmdastjórnar Kvennaárs var kröfunum skipt upp í þrjá flokka og miðast samantektin á aðgerðum dómsmálaráðuneytisins við þá flokkun (Vanmat á störfum kvenna og launajafnrétti, ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð og kynbundið ofbeldi).
Finna má ýmsar aðgerðir sem varða framangreinda þætti í nýrri tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2026–2029 sem dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í september sl. Þar er fjallað ítarlega um helstu áherslur stjórnvalda í jafnréttismálum til næstu ára.
Þær 40 aðgerðir sem finna má í áætluninni flokkast í sex meginsvið sem eru; kyn, áhrif og þátttaka, kynjuð tölfræði og mælaborð, jafnrétti á vinnumarkaði og kynbundinn launamunur, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, jafnrétti í menntun og jafnrétti í íþrótta- og æskulýðsstarfi og alþjóðastarfi.
Vanmat á störfum kvenna og launajafnrétti
Áhersla hefur verið lögð á endurmat á störfum kvenna endómsmálaráðuneytið leiðir stýrihóp sem vinnur að þróun virðismatskerfis í þágu launajafnréttis þar sem markmiðið er að greina hvaða þættir einkenna hefðbundin kvennastörf – og hvaða þættir kunna að vera vanmetnir – svo unnt sé að útrýma þeim hluta launamunar sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og rótgrónu vanmati á störfum kvenna. Starfshópurinn mun skila af sér tillögum að nýju kerfi í árslok 2026.
Þá er unnið að breytingum á jafnlaunavottunarkerfinu til að einfalda ferlið og gera það skilvirkara, sem mun stuðla að virkari framkvæmd launajafnréttis í atvinnulífi.
„Jafnlaunakerfið á að stuðla að raunverulegu launajafnrétti og fyrirtæki eiga að tryggja jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Þessar breytingar koma í veg fyrir að stjórnsýslan standi í vegi fyrir markmiðinu sem er áfram hið sama – launajafnrétti – og einfaldar ferlið,“ segir ráðherra.
Með breytingunni í frumvarpinu er komið til móts við gagnrýni um kostnað við ferli jafnlaunavottunar en fyrirtækjum og stofnunum er engu að síður gert skylt sem fyrr að skila nauðsynlegum gögnum um kynbundinn launamun og gera úrbætur þar sem þess gerist þörf. Markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er óbreytt og enginn afsláttur er gefinn af kröfunni um að starfsfólki sé ekki mismunað í launum á grunni kynferðis.
Ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð
Á undanförnum árum hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem nú er kveðið á um 12 mánaða samanlagðan rétt foreldra og vinna stendur yfir við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Stjórnvöld hafa sett á laggirnar aðgerðahóp sem vinnur að því að móta tímasetta aðgerðaáætlun með það að markmiði að loka umönnunarbilinu.
Hópnum var meðal annars falið að horfa heildstætt á umönnun og menntun barna og skoða hvort þörf sé á kerfisbreytingum til að brúa umrætt bil.
Hópurinn er skipaður fulltrúum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, innviðaráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins (SA), Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Bandalagi háskólamanna (BHM), BSRB, Kennarasambandi Íslands (KÍ) og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Kynbundið ofbeldi
Dómsmálaráðherra hefur lagt sérstaka áherslu á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi og nú þegar hafa verið boðaðar ýmsar aðgerðir sem miða að því að auka vernd brotaþola.
„Árangri Íslands í jafnréttismálum má fagna en það er hins vegar blekking að halda að markmiðinu sé náð. Það þarf ekki annað en að horfa á tölur um ofbeldi gegn konum og öryggistilfinningu kvenna til að átta sig á því að svo er ekki. Við ætlum að ná meiri árangri með markvissum aðgerðum til að tryggja öryggi kvenna,” segir ráðherra.
Á undanförnum árum hefur verið unnið að úrbótum við meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu og stuðla að bættri upplifun og betri þjónustu við þá sem í hlut eiga. Meðal annars má nefna að í gildi er sérstök aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023 til 2025 og eru verkefnin í áætluninni fjölbreytt og mörg. Einnig má nefna að stöðugildum hjá lögreglu og ákæruvaldi hefur verið fjölgað til að stytta málsmeðferðartíma. Auk þess hefur verið unnið að bættu verklagi þegar kemur að rannsókn kynferðisbrotamála, sem hefur skilað árangri sem endurspeglast meðal annars í styttri málsmeðferðartíma.
Meðal aðgerða sem búið er að ýta úr vör eða eru í undibúningi má m.a. nefna:
- Nálgunarbann og rafrænt eftirlit – Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til kynningar frumvarp ráðherra um breytingar á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps ráðherra sem falið var að yfirfara gildandi lög. Tillögur hópsins fela í sér heimild til rafræns eftirlits með staðsetningarbúnaði, t.d. ökklaböndum, til að tryggja framfylgd nálgunarbanns. Breytingunum er ætlað að styrkja réttarstöðu brotaþola og þá sérstaklega þeirra sem mega þola heimilisofbeldi og umsáturseinelti. Þá er breytingunum ætlað að koma til móts við þær áskoranir sem lögregla og ákæruvald hafa staðið frammi fyrir hvað varðar endurtekin brot og sönnun brota þeirra, en erfitt hefur reynst að sanna slík brot með tilheyrandi afleiðingum fyrir brotaþola, en án afleiðinga fyrir geranda.
- Landsáætlun um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi gegn konum – Í dómsmálaráðuneytinu er nú verið að leggja lokahönd á nýja landsáætlun um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi gegn konum. Áætlunin verður sett fram með það að markmiði að vinna áfram að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi. Í henni verða aðgerðir um meðferð kynferðisbrota auk þess sem þar verður að finna aðgerðir sem innleiða eiga ákvæði Istanbúl samningsins sem er samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
- Barátta gegn mansali – Mansal er alvarlegt jafnréttismál og ráðherra hyggst leggja fram nýja landsáætlun gegn mansali árið 2026 í samræmi við ráðleggingar GRETA. Þá hlaut Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og samhæfingarmiðstöð fyrir þolendur mansals, 28 milljóna króna styrk árið 2024 til að sinna verkefnum tengdum mansali. Íslensk stjórnvöld hafa þá gripið til aðgerða til að bæta greiningu þolenda mansals, svo sem með leiðbeiningum um mansal fyrir lögreglumenn, handbók um greiningu og viðtöl við hugsanlega þolendur mansals fyrir starfsfólk Útlendingastofnunar og upplýsingagátt fyrir þolendur með upplýsingum á nokkrum tungumálum um vísbendingar um mansal og hvar hægt sé að leita aðstoðar.
Í samantekt þessari í tengslum við kröfur framkvæmdastjórnar Kvennaárs skal tekið fram að ekki er um tæmandi upptalningu á aðgerðum að ræða.
Mynd/aðsend

