Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skrifar á facebook síðu sinni:

Þeir sem hlustuðu grannt á veðurspá Veðurstofunnar heyðu að varað er við SV 23-30 m/s sums staðar á landinu í fyrramálið.

Allmikil háloftaröst liggur sunnan úr hafi og yfir austanvert landið. Óvenju milt er yfir Bretlandseyjum. Utan í röstinni til móts við kalt loft í vestri geta myndast illskeyttar lægðabylgjur. Ein slík er í mótun og er spáð yfir vestanvert landið í nótt og fyrramálið. Hvessir svona hefðbundið með SA-átt og rigningu með skilunum á undan lægðarmiðjunni. Jú, jú hvassviðri eða stormur fylgir, en svo sem ekkert stórt á ferðinni. Einhverjar líkur, en þó ekki verulegar, á eldingaveðri með skilunum sunnanlands.

.

En það eru afturbeygðu skilin strax á eftir lægðarmiðjunni sem fá mesta athyglina að þessu sinni. SV-vindröst sem spáð er feyki öflugri í örfáar klukkustundir á meðan lægðin berst norður fyrir land.

Bretar kalla þetta fyrirbæri Sting jet, enda broddurinn á skilunum sunnan lægðarmiðjunnar. Henn getur orðið sérlega varasamur í kröppum lægðum rétt áður en þær taka að grynnast.

Það slær til með 23-30 m/s um mest allt austanvert landið og sums staðar norðanlands verður mjög illskeytt í SV-áttinni ef af líkum lætur.

Hins vegar skiptir hún miklu stefna lægðarinnar hér yfir. Á stóru spálíkönunum munar talsverðu þar sem evrópska ECMWF líkanið gerir ráð fyrir miðjunni nærri Skagafirði/Eyjafirði kl. 6 í fyrramálið á meðan sú bandaríska GFS, sýnir miðjuna yfir Vestfjörðum. Fylgjast þarf grannt með sérsteklega í kvöld þegar myndin verður orðin skýrari.

.

Öll spákortin eru fengin af Brunni Veðurstofunnar. Harmonie spáin tekur mið af ECMWF spánni og rímar oftast ágætlega við hana.

Sjá nánar um veðrið: Blika.is