Haukur Sigurðsson forstöðumaður íþróttamannvirkja og Vinnuskóla Fjallabyggðar lét af störfum um síðustu áramót. Haukur hefur starfað sem forstöðumaður íþróttamannvirkja síðustu 29 ár, fyrst fyrir Ólafsfjarðarkaupstað og síðar Fjallabyggð. Að auki hefur Haukur veitt Vinnuskóla Fjallabyggðar forstöðu  síðustu ár og þá hafði hann umsjón með félagsmiðstöðinni Neon um árabil.

Starfsfólk íþróttamiðstöðva ásamt bæjarstjóra og deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála áttu kvöldstund með þeim hjónum Hauki og Jónínu og samglöddust þessum tímamótum. Haukur hefur verið einstaklega farsæll í starfi öll árin og unnið ötullega að íþrótta- og tómstundalífi í Fjallabyggð. Í þakklætisskyni fyrir mikið og óeigingjarnt starf var honum færður blómvöndur og gjöf frá sveitarfélaginu.

Skarphéðinn Þórsson hefur tekið við starfi forstöðumanns íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar. Fjallabyggð þakkar Hauki fyrir hans mikla og farsæla starf og óskar honum og eiginkonu hans velfarnaðar í þeim verkefnum sem nú taka við. Fjallabyggð býður Skarphéðinn velkominn til starfa og óskar honum velfarnaðar í starfi.

Mynd/Fjallabyggð