Síðastliðið ár hefur Kaupfélag Vestur Húnvetninga ásamt fleiri aðilum tekið þátt í verkefni sem hefur verið nefnt Skógarplöntur. Verkefnið miðar að því að koma á fót gróðrarstöð sem framleiðir trjáplöntur til gróðursetningar. Fjölmargir aðilar hafa komið að verkefninu en þeir sem hafa drifið það áfram eru, Magnús Barðdal frá SSNV, Björn Líndal Traustason frá KVH, Hafberg Þórisson garðyrkjumaður og eigandi Lambhaga og Skúli Húnn Hilmarsson eigandi Káraborgar ehf. Hópurinn hefur hist á vikulegum fundum frá sumri 2022. Auk þess hafa meðlimir hópsins átt fundi með fjölmörgum aðilum, innanlands og utan.
Hugmyndin er að reisa gróðrarstöð sem getur framleitt allt 15 milljónir plantna árlega. Gert er ráð fyrir að stöðin byggi á mikilli sjálfvirkni. Með því vinnst ýmislegt, til dæmis það að allar plöntur fá sama magn af ljósi, vatni og næringarefnum og verða plönturnar þess vegna allar svipaða stórar og jafntilbúnar að takast á við lífið eftir gróðursetningu. Einnig skilar sjálfvirkni betri og auðveldari meðhöndlun á plöntum. Sjálfvirkni gerir það einnig að verkum að erfiðustu störfin á gróðrarstöðinni verða unnin með vélum en ekki af fólki.
Teymið hefur verið í samtali við fjölmarga aðila sem eru í þessum plöntubransa. Þar má helst nefna Skógræktina, Katrínu Ásgrímsdóttur frá Sólskógum en það fyrirtæki framleiðir megnið af þeim skógarplöntum sem eru á markaðnum, Yggdrasill Carbon sem hafa stór áforum um ræktun trjáa og sölu á kolefniseiningum, Kolvið sem er einnig stór á sviði útplönutnar. Erum í samtölum við stóra aðila í sjávarútvegi sem þurfa að jafna kolefnisspor sitt á næstu árum og svo mætti áfram telja. Auk þess hefur hópurinn verið í miklum samskiptum við BCC í Svíþjóð og Svenska Skogsplantor.
Í Íslandi eru framleiddar um 6-7 milljónir plantna árlega. Skógræktarstjóri hefur sagt í fjölmiðlum að þörfin verði 20-25 milljónir plantna á næstu árum. Helsta breytingin sem hefur orðið á þessum markaði er sú að hér áður var Skógræktin nánast eini aðilinn sem var að kaupa plöntur í stórum stíl. Nú eru komin á markaðinn fyrirtæki eins og Yggdrasill Carbon og Kolviður sem eru beinlínis að planta til kolefnisjöfnunar, auk þess sem stór fyrirtæki eru að koma inná þennan markað s.s. Festi sem er að planta á Fjarðarhorni í Hrútafirði. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin eru að kaupa landa og munu vilja planta í það á næstu árum. Aðrir aðilar hafa einnig verið að koma inn eins og Land Life Company sem hefur tekið nokkur svæði að sér til skógræktar.
Teymið okkar hefur síðasta árið verið að afla sér þekkingar á þessum bransa. Í desember sl fór hluti teymisins ásamt sveitarstjóra Húnaþings vestra til Svíþjóðar þar sem skoðaðar voru gróðrarstöðvar í eigu Svenska Skogsplantor og í framhaldi af þeirri heimsókn var haft samband við annað sænskt fyrirtæki, BCC sem hanna gróðrarstöðvar og framleiða tæknibúnað fyrir gróðrarstöðvar. BCC hefur nú látið teyminu í té upplýsingar um þann búnað sem áætlað er að þurfi til í gróðrarstöð sem gæti framleitt allt að 15 milljón plöntur árlega og gróft mat á kostnaði við hann. Ljóst er að ef verkefnið eigi að komast áfram þarf að finna fjárfesta sem hafa trú á þessu, en gera má ráð fyrir að heildarkostnaður við uppbyggingu stöðvarinnar verði um eða yfir 3 milljarðar króna. Verkefni fékk styrk frá Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnþings vestra og voru þeir fjármunir m.a. nýttir til að greiða kostnað við ferðina til Svíþjóðar.
Unnin hefur verið rekstraráætlun fyrir gróðrastöð með framleiðslugetu uppá 15 milljónir plantna árlega. Hún byggir að mestu á rekstrarreikningum fyrirtækja sem eru nú þegar í framleiðslu á skógarplöntum á Íslandi að viðbættum upplýsingum frá BCC. Gefur sú áætlun til kynna að góður grundvöllur sé til rekstrar slíkrar stöðvar og að fjárfestar ættu að fá til baka fjárfestingu sína á hóflegum tíma. Það veltur þó á því hve stórann hlut fjárfestar leggja verkefninu til og hve stóran hluta þarf að fjármagna með lánum. Vextir eru háir í dag en líklegt að þeir muni fara lækkandi þegar dregur til tíðinda með þetta verkefni.
Teymið fékk tækifæri til að kynna verkefnið fyrir fjárfestum á fjárfestahátíð á Siglufirði í lok mars sl. en þar fengu 14 aðilar að kynna verkefni sín fyrir um 150 aðilum á vegum fjárfesta á Íslandi. Kynningin gekk vel og tókst að mynda tengsl við nokkra aðila sem gætu aðstoðað okkur í framhaldinu. Um var að ræða bæði fjárfesta og aðila sem vinna beint við það að koma nýjum verkefnum á framkvæmdastig.
Það sem liggur fyrir nú er að BCC hefur gefið tilboð í svokallaða „feasibility study“. Í því felst að stöðin verður planlögð, þ.e. hvernig hún verður upp sett með tilliti til framleiðslulínunnar. Auk þess felst í þessu ræktunarplan, áætlun um rekstrarvörur ss. vatn, áburð, mold bakka og þessháttar. Ákveðið hefur verið að taka því tilboði og jafnframt að stofna einkahlutafélag um verkefnið.
Enginn veit með vissu hvort stöðin rísi í héraðinu á næstu misserum, en við sem komum að því höfum fulla trú að að það sé góður rekstrargrundvöllur til staðar og þörf sé fyrir framleiðslu stöðvarinnar á markaðnum. Allskonar þættir geta spilað inní það hvort takist að fá fjárfesta að verkefninu og ekkert í hendi með það. Við sem höfum unnið að þessu síðastliðið ár höfum fulla trú að því að það takist að koma þessari gróðrarstöð á laggirnar og munum vinna hörðum höndum að því að svo verði.
Heimild/KVH