Eyjan La Palma hefur verið mikið í fréttum að undanförnu eftir að eldgos hófst þar sunnudaginn 19. september. Gosið í eld­fjallinu Cumbre Vieja hefur valdið gífurlegri eyðileggingu og þúsundir eyjarskeggja hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Kanari.is birti fróðlegar upplýsingar um La Palma, Trölli.is fékk góðfúslegt leyfi til að deila þessum upplýsingum til lesenda sinna.

La Palma er í dag þekkt sem eyjan fagra, sem á spænsku útleggst sem „la isla bonita.“ Á tímum frumbyggjanna sem eyjuna byggðu hét hún Benahoare en landkönnuðir frá Mallorca stigu á land á eyjunni á 14. öld og nefndu hana San Miguel de La Palma í höfuðið á Palma, sem er höfuðborg Mallorca. Síðar hefur nafnið verið stytt í La Palma, sem hefur valdið ruglingi við fyrrnefnda borg, Palma (Mallorca), og Las Palmas á Gran Canaria.

La Palma er 708,32 km² og telur rúma 83.000 íbúa. Hún er ein af yngstu eyjunum í Kanaríeyjaklasanum og varð til við neðansjávareldgos á um 4.000 metra dýpi fyrir um 2 milljónum ára. Eldfjallakeðjan Cumbre Vieja, sem er u.þ.b á miðri eyjunni, skiptir eyjunni svo í tvö ólík loftslagssvæði. Frá árinu 2002 hefur eyjan verið vernduð sem friðland lífríkis (e. biosphere reserve) og varð þar með þriðja eyjan í Kanaríeyjaklasanum sem fékk þá verndun á eftir Lanzarote og El Hierro. Síðan þá hefur Gran Canaria einnig hlotið sömu vernd fyrir hluta eyjunnar.

Hæsti punktur La Palma, El Roque de los Muchachos, nær 2426 metra hæð og er næsthæsti punktur Kanaríeyja á eftir El Teide á Tenerife. Hún er þá sú eyja í klasanum sem hefur mest skóglendi, en þar má helst finna furu (s. pino) og larubæ (s. laurisilva). Þá er mikil bananaræktun á La Palma.

Hægt er að sjá frekari staðsetningu La Palma með því að smella á mynd hér að neðan.

Myndir/ viajes.nationalgeographic.com