Áhöfnin á varðskipinu Þór flutti mánudaginn 5. september 16 bretti af grjótskífum í land á Grímsey. Alls er um 11 tonn af grjóti að ræða sem notað verður vegna byggingar á nýrri kirkju í eynni.
Þegar varðskipið var við eyjuna var svarta þoka og lítið skyggni en þrátt fyrir það gekk vel að ferja brettin í land. Þau voru hífð um borð í léttbát Þórs og siglt með þau í Grímseyjarhöfn þar sem byggingaraðilar tóku við þeim.
Fyrr í sumar flutti áhöfn Þórs byggingarefni í eyjuna en þá flutti skipið sex tonn af timbri og grjót í Grímsey.
Landhelgisgæslunni þykir ánægjulegt að geta aðstoðað við framkvæmdir á nyrsta kirkjubóli landsins þegar varðskipin eru við eftirlit á svæðinu.








Myndir/Landhelgisgæsla Íslands