Húnahornið birti nýlega:

Laxveiði í húnvetnskum laxveiðiám er dræm eins og víðast hvar á landinu. Hún er þó í flestum tilfellum skárri en í fyrra. Mest af laxi hefur veiðst í Miðfjarðará eða 729 laxar og skilaði vikuveiðin 189 löxum. Um svipað leyti í fyrra höfðust veiðst 647 laxar í ánni en árið 2018 voru þeir orðnir 1.422 talsins. Miðfjarðará er nú í fjórða sæti lista Landssambands veiðifélaga yfir 75 aflahæstu ár landsins. Engin önnur húnvetnsk á kemst í tíu efstu sætin og er af sem áður var.

Blanda er 13. sæti listans með 334 laxa en um svipað leyti í fyrra höfðu veiðst 480 laxar í ánni. Laxá á Ásum er í 15. sæti með 316 veidda laxa sem er rúmlega 40 löxum meira en í fyrra. Víðidalsá er í 18. sæti með 251 lax en í fyrra var áin komin í 168 laxa og árið þar áður í 309 laxa um svipað leyti.

Í Vatnsdalsá hafa veiðst 161 lax sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Hrútafjarðará er komin í 130 laxa og Svartá í 44 laxa.

Mest hefur veiðst í Eystri-Rangá eða 3.308 laxar og skilaði síðasta vikuveiði 1.033 löxum. Ytri-Rangá er í öðru sæti og er komin yfir þúsund laxa markið en þar hafa veiðst 1140 laxar og skilaði veiðivikan 136 löxum. Urriðafoss í Þjórsá er í þriðja sæti og er veiðin komin í samtals 793 laxa og veiðivikan skilaði einnig 136 löxum.

Forsíðumynd: Lax úr Miðfjarðará. Ljósm: FB/midfjardaralodge