Nú er innan við mánuður í að Leikflokkur Húnaþings vestra setji upp söngleikinn Hárið í Félagsheimilinu Hvammstanga en eru sýningar áætlaðar um komandi páska. Þessar síðustu vikur er æft 3-5 sinnum í viku, þannig að nóg er að gera hjá þátttakendum fram að páskum.

Félagsheimilið Hvammstanga

 

Sýningin státar af 26 manns, 7 aðalleikurum, 14 manns í kór og dansi og 5 manna hljómsveit. Í heild eru 38 manns sem koma að sýningunni sem telja má góðan fjölda miðað við stærð leikfélagsins.

Þátttakendur eru að stórum hluta þeir sömu og komu að uppsetningu á Súperstar, en var sú sýning sett upp í samvinnu Leikflokksins á Hvammstanga og Leikdeild Ungmennafélagsins Grettis á Laugarbakka.

Sameinuðust þessu tvö félög í Leikflokk Húnaþings vestra sl. haust. Gekk sú sýning vonum framar og sóttu um 900 manns sýninguna. Leikstýrir Sigurður Líndal Þórisson báðum sýningunum.

Eins og í Súperstar koma að sýningunni nærri eingöngu heimamenn. En þar sem Hárið inniheldur bæði leikin og sungin atriði, fékk Sigurður sér til aðstoðar Cassei Newby til að hanna hluta af dönsunum. Kemur hún frá London en þekkjast þau Sigurður þaðan, enda bjó hann þar í yfir 20 ár á meðan hann lærði og starfaði sem leikari og leikstjóri.

„Æfingar hafa gengið vel. Það er auðvitað erfitt að ná alltaf öllum saman á hverri æfingu enda fjölmennur hópur en þetta verður alltaf betra með hverri æfingu. Að öllum ólöstuðum að þá á kórinn mikið hrós skilið. Þau þurfa að læra bæði dansa, laglínur og texta við flestöll lögin og er það heilmikið verkefni.“

Það er gaman að segja frá því að einn þátttakenda Súperstar hitti Ara Matthíasson þjóleikhússtjóra á förnum vegi og gaf hann sýningunni mikið lof eftir að hafa séð upptöku af henni. Það má segja að velgengni þeirrar sýningar hafi spurst út því nú þegar hafa fleirir miðar selst á Hárið en á sama tíma fyrir Súperstar og er stór hluti þess íbúar utan Húnaþings.

Það er því um að gera að fara að tryggja sér miða, þar sem eingöngu verður sýnt yfir páskana.

Miðasala fer fram á leikflokkurinn.is eða í síma 655-9052 / 771-4955

 

Guðjón Loftsson, Luis Aquino, Valdimar Gunnlaugsson, Eydís Bára Jóhannsdóttir og Herdís Harðardóttir.
Mynd: Hulda Signý Jóhannesdóttir

 

Ingunn Elsa Rafnsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Elísabet Sif Gísladóttir, Aldís Olga Jóhannesdóttir, Herdís Harðardóttir, Eydís Bára Jóhannsdóttir.
Mynd: Hulda Signý Jóhannesdóttir

 

Kristín Guðmundsdóttir, Elísabet Sif Gísladóttir og Aldís Olga Jóhannesdóttir.
Mynd: Hulda Signý Jóhannesdóttir

 

Aðsent