Laugardaginn 23. október verður handverkssýningin Sköpun og verk haldin í Tjarnarborg Óafsfirði. Á sýningunni verða listmunir, handverk og kynnig á sköpun og verki.

Sigurlaug Hrafnsdóttir og Jón Sigurjónsson

Lauga er Ólafsfirðingur hún er lipur með prjóna, heklunálar og hin ýmsu áhöld sem notuð eru til handverks, hannar og  útbýr ýmsa skrautmuni og skartgripi sem njóta mikilli vinsælda og sýður niður sultur og annað góðgæti sem enginn getur staðist.

Nonni er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og flutti til Ólafsfjarðar fyrir 3 árum til Laugu sinnar.  Nonni er mjög laghentur, hann gerir meðal annars listmuni úr gömlum hnífapörum, hringa og hálsmen svo eitthvað sé nefnt.  Einnig merkir Nonni penna sem hafa notið vinsælda og eru frábærar tækifærisgjafir eða til eigin nota.

Lauga og Nonni eru með varning sinn í hinum ýmsu galleríum og hafa verið áberandi á handverksmörkuðum. 

María Petra Björnsdóttir

María Petra Björnsdóttir verður með á sýningunni Sköpun og verk í Fjallabyggð 2021 í Menningarhúsinu Tjarnarborg fyrsta vetrardag 23. október.

María Petra er fædd og uppalin á Siglufirði. Hún hefur búið í Ólafsfirði síðan árið 2012, er gift Halldóri Ingvari Guðmundssyni Ólafsfirðingi og saman eiga þau þrjú börn.  María Petra er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og er núna að læra Heilsunudd.

Í Maríu Petru býr kraftur til að gera vel og miðla upplýsingum og hugviti til okkar allra með að gera góða hluti ekki síst með þarfir fjölskyldunnar í huga er kemur að matseld og næringu.

Nýverið gaf María Petra út bókina Orkumatur sem inniheldur upplýsingar um góða næringu og hollan mat með þarfir og upplifanir barna í næringu og matargerð.  Orkumatur hefur vakið athygli og verður María Petra með verk sitt til sýnis og sölu á Sköpun og verk í Fjallabyggð í Menningarhúsinu Tjarnarborg.

Hrönn Einarsdóttir  

Hrönn er Siglfirðingur og öllum kunn fyrir prjónaverk sín og fallegar ljósmyndir. Hún hefur sérstaklega næmt auga fyrir að fanga fegurðina í kring um okkur og hefur haldið ljósmyndasýningar bæði ein og þátttakandi með öðrum.  Einnig hefur Hrönn verið með glasamottur með  eigin ljósmyndum úr íslenskri náttúruflóru sem hafa notið vinsælda.

Hrönn er mikil prjónakona og með glögga sýn á handverk.  Hún hefur verið með húfur, peysusett, vettlinga og ýmsar prjónavörur undir merkinu Kuldaskjól.

Sannarlega þess virði að kíkja við á handverkssýninguna Sköpun og verk í Fjallabyggð 2021 í Tjarnarborg fyrsta vetrardag 23. október milli kl. 13.00 og 17:00