Kl. 05:43 barst lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning frá vegfarenda um Grenivíkurveg um að hann hefði ekið inn í aurskriðu og við það hafnað utan vegar.

Með ökumanninum voru tveir farþegar og sakaði engan. Lögregla fór á staðinn og lokaði veginum og bjargaði fólkinu til Akureyrar.

Skriðan er á veginum skammt sunnan við bæinn Fagrabæ. Það er erfitt að meta umfang skriðunnar í myrkrinu en við fyrstu sýn áætluðu lögreglumenn að hún gæti náð yfir 50-70 metra kafla á veginum og gæti verið allt að meters þykk segir í tilkynningu frá lögreglu.

Vegurinn er lokaður frá afleggjaranum við Víkurskarð og að veginum í Dalsmynni. Dalsmynni er opið og unnt að nota það sem hjáleið.

Lögreglan er í sambandi við ofanflóðavakt Veðurstofunnar. Í birtingu verður lagt mat á aðstæður og hvort hætta er á frekari skriðuföllum. Þangað til það mat hefur farið fram verður vegurinn lokaður. Haft hefur verið samband við íbúa bæja inni á lokunarkaflanum og þeir upplýstir um stöðu mála.

Mynd/vegagerðin