Eins og logreglan á Norðurlandi eystra greindi frá í gær þá voru viðbragðsaðilar í Eyjafirði kallaðir út um kl. 15:00 vegna aðila sem hafði verið í smalamennsku innarlega í Eyjafirði og slasast. Var þetta hátt upp í hlíðum Hagárdals að norðanverðu. Mjög erfiðlega gekk að komast til mannsins og þá var ekki hægt að notast við þyrlu LHG, sem kominn var norður, vegna misvinda í dalnum og mikils uppstreymis.

Þegar viðbragðsaðilar komust til hans var hann látinn. Tók þá við flókin fjallabjörgunaraðgerð þar sem færa þurfti manninn niður eina 500 metra í mjög brattri hlíð og bera hann síðan tæplega 3 km niður dalinn að flutningstæki sem þar var.

Þegar á leið verkefnið var óskað liðsinnis björgunarsveita úr Skagafirði og Þingeyjarsýslu og mættu hópar frá þeim og lögðu verkefninu liðsinni sitt.

Aðgerðum í Hagárdal lauk um upp úr kl. 23:00 í gærkveldi.

Lögreglan þakkar öllum viðbragðsaðilum sem komu að verkefni þessu, sem var mjög krefjandi, kærlega fyrir þeirra aðstoð. Um tildrög atviksins er ekki frekar vitað og er rannsókn í höndum lögreglu.