Þrátt fyrir að útgáfa geisladiska hafi dregist verulega saman á allra síðustu árum, er greinilega ekki öll nótt úti enn því nýr geisladiskur þar sem öll lögin eru með sterka Siglfirska tengingu, ýmist í gegn um flytjanda, laga eða textasmið er kominn út. Og til að tengja sig betur við nútímann er hann einnig fáanlegur á USB formi.

Um er að ræða endurútgáfu á diskunum „Svona var á Sigló“ sem komu út 1999 og 2004, auk fjögurra laga sem bætt var við.

Það eru lögin Vodkafamelý með hljómsveitinni Kargo, Dúett við þekkt erlent lag með texta eftir Friðrik Stefánsson (Fidda) sem þeir Þórarinn Hannesson og Birgir Ingimarsson syngja saman, Siglufjörður eftir Bjarka Árnason sungið af Þorsteini Bjarnasyni og kór sem samanstendur af 13 Fílapenslum og Gómum og erlent lag með texta eftir Guðmund Ingólfsson sungið af Hallvarði S. Óskarssyni.

Þetta eru því alls 24 lög sem taka 80 mínútur í spilun. Sum laganna hafa verið endurhljóðblönduð og hljóðfærum jafnvel bætt við hinar eldri upptökur auk þess sem Róbert Óttarsson bætist í hóp söngvaranna.

Gömlu diskarnir hafa verið ófáanlegir nánast frá því að þeir komu fyrst út, en talsvert hefur verið spurt um þá á liðnum árum. Það þótti því full ástæða til að gera eitthvað í málinu. Og þá má geta þess að fjöldi landsþekktra hljóðfæraleikara leggur útgáfunni lið og disknum fylgir 60 blaðsíðna bók með textum og myndum.

Diskurinn og USB lykillinn eru til sölu hjá útgefanda (Leó R. Ólason) og hægt er að panta hann í facebook skilaboðum, sms í síma 863-9776 eða hringja í sama númer eftir kvöldmat.

 1. Gústi guðsmaður
 2. Vodkafamelý
 3. Minning um síldarævintýri
 4. Anna Lára, Bryndís, Bára
 5. Sem lindin tær
 6. Eftir ballið
 7. Ekki meir
 8. Bréfið hans Óla
 9. Ég sá hana fyrst
 10. Síðasta svinglagið
 11. Með kveðju til þín
 12. Gautasyrpa
 13. Rauðu sokkar rabbarbarans
 14. Ég átti von á því
 15. Dísir vorsins
 16. Ég er í stuði
 17. Heim á Sigló
 18. Í sumar og sól
 19. Vísis syrpa
 20. Sumarstemning á Siglufirði
 21. Siglufjörður
 22. Kveiktu ljós
 23. Dagdraumur
 24. Hólssveinabragur