Á morgun, mánudaginn 23. nóvember hefur göngu sína nýr morgunþáttur á FM Trölla.

Stjórnandi þáttarins er Trausti S. Friðriksson, sem sendir þáttinn út frá Studio VI á Akureyri. Trausti á ættir að rekja til Hrauna í Fljótum, sonur Bjarkar Pétursdóttur, sem er dóttir Rósu og Péturs á Hraunum.

Þátturinn Morgunkorn verður á dagskrá mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 10 – 12 árdegis.

Trausti starfaði sem þáttarstjórnandi á útvarp Akureyri um hríð, og var vinsæll meðal hlustenda þar.

Akureyringar verða þó margir að láta sér nægja að hlusta á FM Trölla á netinu, þótt heyrst hafi að hægt sé að ná útsendingunni á stöku stað í Akureyrarbæ á FM 103.7 í vandaðri viðtækjum, séu þau stillt á nákvæmlega 103.7 MHz.

FM Trölli býður Trausta hjartanlega velkominn í hóp þáttastjórnenda stöðvarinnar.