Prímus
Ævintýrið hófst upp í Gagga árið 1977, eða var það ´76? Það breytir svo sem ekki öllu máli hvort árið það var, en upphaflega fengu drengirnir að æfa í kjallaranum í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar við hliðina á íbúðinni þar sem Jónas Tryggvason bjó ásamt fjölskyldu sinni. Þetta voru þeir Baldur Jörgen, Dúi Ben og Lárus Ingi sem þarna byrjuðu að fikra sig áfram á tónlistarbrautinni, nýlega búnir að eignast sín fyrstu hljóðfæri og þannig gekk það um nokkurra mánaða skeið. Það var bara æft og æft og tíminn leið, en svo var farið að hugsa stærra. Það gengu fljótlega fleiri til liðs við þennan nýtilkomna hljómsveitarsprota, sem hefur líklegast þá verið 1978 eða ´79 og í framhaldinu flutti hljómsveitin sig í rúmbetra húsnæði sem var að Gránugötu 14. Hún samanstóð nú af Guðmundi Gunnarssyni, Lárusi Inga Guðmundssyni, Kristbirni Bjarnasyni, Dúa Benediktssyni, Guðlaugu Sverrisdóttir, Steinunni Marteinsdóttir, Baldri Jörgen Daníelssyni og Viðari Jóhannssyni.

Þetta var orðið nokkuð fjölmennt band og enn var æft og æft, en þar kom að farið var að huga að einhveri spilamennsku og til að byrja með var stefnt á að koma fram í pásu hjá Miðaldamönnum á dansleik sem halda átti að Hótel Höfn. Þegar gera átti auglýsinguna fyrir ballið kom það auðvitað í ljós sem enginn hafði hugsað út í, að hljómsveitinni hafði ekki verið gefið nafn. Enginn tími var til að leggja höfuðið í bleyti vegna þess og Biggi Inga sem sá um auglýsingagerð fyrir Miðaldamenn, varð að bjarga málinu í snarhasti og nefndi bandið “Indíánarnir” sem var síðan notað fyrst um sinn. Síðar var einnig komið fram í pásu hjá Miðaldamönnum í Tjarnarborg og svo stóð til að spila á nýjársballi í Grímsey, en þegar þar að kom, varð allt kolófært og Grímseyingar urðu því að bjarga sér með einhverjum öðrum hætti þau áramótin.

Sennilega kom hljómsveitin fram í fleiri skipti þó svo að meðlimunum gangi ekki vel að muna hvar það gæti hafa verið. Kannski það hafi verið í Höfðaborg á Hofsósi, því það er Baldri Jörgen og Steinunni í fersku minni að í sjoppunni á Hofsósi var hið endanlega nafn fundið. Þar voru hljómsveitarmeðlimirnir alla vega staddir eitt sinn og ræddu sín á milli að þetta Indíánanafn væri nú svolítið hallærislegt. Einhverjum þeirra varð þá litið upp á efstu hillu í sjoppunni og sá þar bláan prímus og varð þá að orði; hvað um Prímus? Það var í beinu framhaldi samþykkt þarna á staðnum og upp frá því hét hljómsveitin Prímus það sem hún átti eftir ólifað sem voru næstu tvö árin eða svo. Aðal lögin á prógramminu voru t.d. Proud Mary, Jungle too the zoo, Hungy heart, You may be right, Standing at the end of the line og Sweet little rock svo dæmi sé tekið. Viddi byrjaði lagið I´m beliver með mikilfenglegri bassasóló og Guðlaug söng Xanadu með mikilli innlifun.

Aftur fékk hljómsveitin nýtt æfingahúsnæði sem var að þessu sinni KS húsið að Suðurgötu. Kristbjörn og Guðlaug voru þá hætt, en áfram var haldið að æfa og þessi nýi staður varð eins konar félagsmiðstöð fyrir meðlimina. Þar var oft mætt snemma dags og haldið út fram á kvöld, en það hefur líklega verið 1981 eða ´82 sem hún hætti störfum. Hljómsveitin Prímus var til í u.þ.b. fimm ár, kom nokkrum sinnum fram opinberlega, lék þó aldrei á heilum dansleik, en gaf meðlimum sínum mikla lífsfyllingu og ótal góðar stundir.

Því miður tókst mér ekki að verða mér úti um neinar myndir af Prímus, en ef einhver lumar á slíku, væri vel þegið að sá eða sú hefði samband.

Miðaldamenn.
Árið 1977 byrjaði sá sem þetta ritar að spila með Miðaldamönnum, en þá voru þar fyrir Sturlaugur Kristjánsson, Magnús Guðbrandsson og Birgir Ingimarsson. Upphaflega var stofnað til þeirrar hljómsveitar um 1970 af þeim Þórði Kristinssyni, Bjarka Árnasyni og Magnúsi Guðbrandssyni en Sturlaugur Kristjánsson bættist þó fljótlega við. Gríðarlega miklar mannabreytingar urðu meðan hljómsveitin starfaði og hef ég ekki tölu á öllum þeim meðlimum hennar sem stöldruðu við í þessu nokkuð langlífa bandi. Líklega settu þeir snillingar Bjarki Árnason og síðar Gerhard Schmidt þó einna mestan svip á bandið meðan þeir stöldruðu þar við, auk saxófónleikarans Rúnars Georgssonar sem staldraði einnig þar við í stuttan tíma. Tilefnið að stofnuninni var líklega tilkoma Hjóna og Paraklúbbsins og í framhaldinu vöntun á einhverjum tónlistarmönnum sem höfðu þekkingu á “eldrimannamúsik”, en þessi hljómsveit átti svo sannarlega eftir að þróast og tónlistarstefnan að útvíkkast í ýmsar áttir eftir því sem árin liðu. Aðspurður gaf Magnús þá skýringu á nafninu að þegar hljómsveitin var stofnuð hefðu tveir meðlimirnir þegar verið orðnir miðaldra, en hinir tveir voru fæddir um miðja öldina.

Mér er enn minnisstætt hvernig ég byrjaði í þessari hljómsveit, en á þessum tíma trúði ég því í hreinskilni að minn tími í poppinu væri liðinn.

Ég var farinn að búa, kominn með konu og barn og var að byrja í Iðnskólanum.
Einn daginn var bankað upp á og tveir félagar stóðu við dyrnar og heilsuðu kumpánlega, það voru þeir Biggi Inga og Sturlaugur og samtalið byrjaði nokkurn vegin svona:

“Við viljum kaupa þennan jeppa af þér” sagði Biggi og benti á appelsínugula rússajeppann á stæðinu.

Ég hváði og horfði á þá alveg forviða.

“Viljið þið kaupa jeppann?”

“Nei, við viljum reyndar alls ekki kaupa jeppann” sagði Biggi og þeir hlógu ógurlega.

Ég horfði á þá til skiptis.
“Eru þeir komnir hingað bara til að fíflast í mér eða ætli þeir eigi eitthvert erindi” hugsaði ég.

“Okkur vantar mann til að spila með okkur á orgel.”
Sturlaugur hafði nú orðið og hann talaði þannig að ég gat ekki betur heyrt en að hann væri hugmyndasmiðurinn að því sem á eftir fór.

“Ja hérna, ég hélt nú að hljómsveitin væri fullskipuð, er ekki full mikið að vera að reka fimm manna band?”
Ég velti fyrir mér hvort þeir væru enn að gera grín að mér.

Biggi horfði annars hugar til jarðar á meðan Sturlaugur hélt áfram.

“Ja sko, það hefur gengið á ýmsu undanfarið.”

Ég hlustaði hissa og áttaði mig ekki alveg strax á málinu, en svo kveikti ég.
“Þið getið ekki bara látið hann Bjarka fara rétt sí svona, hann setur svo mikinn karakter í hljómsveitina.” Mér þótti tíðindin eiginlega bara slæm.

“Ef þú hefur ekki áhuga þá er það allt í lagi, við finnum bara einhvern annan.”

Sturlaugur snéri sér við á stæðinu og horfði suður yfir bæinn.

“Fyrirgefið ég var bara svo hissa að ég gleymdi að bjóða ykkur til stofu.”
Ég áttaði mig á því að ég var búinn að vera að tala við þá úti á tröppunum allan tíman.
Það var farið inn í eldhús og hellt upp á og umræðan hélt áfram.

“Þetta gengur bara ekki lengur” hélt Sturlaugur áfram “það er alveg búið að ákveða þetta hvort sem þú kemur inn eða einhver annar.”

Mér fannst þetta vera allt hið versta mál.
Ég var að byggja hús, kominn m eð konu og eitt barn og annað á leiðinni og svo var skólinn að byrja.
Ég vissi reyndar ekki ennþá hvernig ég ætti að brauðfæða fjölskylduna fram á vorið.

“Það er fullt að gera og þó nokkur peningur í þessu” sagði Sturlaugur.

Mér leið þegar þarna var komið sögu eins og lítill púki sæti á öxlinni og hvíslaði í eyrað á mér “gerðu það bara.”

Ókey, sagði ég.

Samstarfið gekk vel og það var ágætt að gera, ég tók fljótlega að mér umboðsmennskuna, lagðist í framhaldinu í mikla símavinnu með þeim árangri að við vorum bókaðir nánast hverja einustu helgi út árið og það bæði föstudaga og laugardaga. Birgir sá um auglýsingarnar og ekki er hægt að segja annað en þær hafi verið býsna frumlegar á köflum. En það var auðvitað alltaf verið að hyggja að frekari markaðssetningu og eitt sinn þegar við vorum á leið heim eftir ágæta helgi, dúkkaði upp sú hugmynd að fara í felur um tíma, en birtast fáeinum dögum síðar og gefa þá skýringu að okkur hefði verið rænt af geimverum. Ekki varð þó af því að hugmyndinni yrði hrint í framkvæmd þó okkur fyndist hún á þeim tíma verulega vænleg til árangurs.

1978 útgáfan af Miðaldamönnum sem kom fram á Players 2005 á árshátíð Siglfirðingafélagsins.
(Samsett mynd – LRÓ)

Snemma árs 1978 varð uppstokkun á bandinu og það rokkað talsvert upp. Magnús sem hafði til þessa spilað á gítar, tók við bassanum, Sturlaugur fór í hvíld og í hans stað kom Guðmundur Ragnarsson, en Selma Hauks fór að syngja með okkur. Hún reyndist vera hinn mesti megafrontur og setti afgerandi svip á heildina. Varla hafa margar hljómsveitir verið mikið duglegri að æfa því fyrstu mánuðina voru ekki margir dagarnir sem hópurinn kom ekki saman og tók fyrir eitthvert lag, hamaðist á því þar til árangurinn varð ásættanlegur og útkoman verð ég að segja bara nokkuð góð. Það var allt stokkað upp, gamla lagalistanum var einfaldlega hent og nú léku ferskari vindar um bandið. Aldursmunur var nokkur í bandinu og fannst okkur það svolítið fyndið að elsti meðlimurinn Magnús, var 100% eldri en sá yngsti sem var Selma þá aðeins 15 ára. Það fékkst einhvers konar undanþága fyrir hana hjá lögreglu og barnaverndarnefnd, því allir vildu auðvitað vera alveg vissir um að hún yrði nú ekki sótt inn á miðjan dansleik af þar til bærum yfirvöldum. Maggi var hins vegar nýorðinn þrítugur og þótti okkur hinum það vera ansi hár aldur á þeim tíma.

Miðaldamenn 1980. Frá vinstri talið: Erla Guðfinns, Stína Bjarna, Leó, Birgir og Sturlaugur.
Ljósmynd: Steingrimur Kristinsson

Þegar leið á sumarið fór Selma yfir í Gautana, en um haustið fór Gummi í skóla og Maggi í sjálfskipaða pásu frá hljómsveitarbröltinu.

Sturlaugur kom þá aftur og við ásamt Bigga héldum úti tríói næsta árið sem við nefndum Sigló tríóið, en fljótlega tókum við þó upp Miðaldamannanafnið aftur því það einfaldlega seldi betur.

Snemma vors 1980 bættist okkur góður liðsauki þegar Erla Guðfinns og Stína Bjarna gengu til liðs við okkur og sungu með okkur þá um sumarið, það var verið að nánast hverja helgi og farið víða um land. Um haustið þegar sumarvertíðinni var lokið þurfti að fara að þjónusta annan og öðruvísi hóp, stelpurnar hurfu á braut eins og farfuglarnir og við urðum aftur þrír.

Um haustið 1980 sendi ég lag að gamni mínu í fyrstu Sönglagakeppni Sjónvarpsins sem var haldin snemma árs 1981 og viti menn, það varð eitt af þeim 30 lögum sem kepptu til úrslita og endaði í 8. sæti, en alls bárust rúmlega 500 lög.

Egill Ólafsson söngvari Stuðmanna kynnti svo keppnina á verulega eftirminnilegan hátt, en þau Helga Möller, Ragnhildur Gísladóttir, Haukur Morthens, Pálmi Gunnarsson, Björgvin Halldórsson og Jóhann Helgason sungu lögin. Þetta reyndist mikið happ fyrir okkur og við reyndum að nýta okkur það eins vel og við höfðum vit til sem hefði að ósekju alveg mátt vera svolítið meira. Við vorum alveg reynslulausir á þessu sviði og útkoman varð nokkurn vegin eftir því þó verr hefði getað farið.

Við reyndum að fá Ragnhildi Gísladóttur sem söng lagið í keppninni til liðs við okkur því auðvitað var stefnt á að taka lagið upp og gefa það út. Hún reyndist ekki tilleiðanleg til þess, svo að við fengum Erlu Stefánsdóttir sem hafði sungið með Póló og Ingimar Eydal til að syngja það með okkur í Stúdíó Bimbó á Akureyri. Auk hennar lögðu okkur lið þeir Leó Torfason gítarleikari, Snorri Guðvarðsson söngvari (ættaður frá Sigló) og Viðar Eðvarðsson saxófónleikari, en þau höfðu öll verið í fjölmörgum Akureyrarhljómsveitum.

Miðaldamannaplatan kom út í júní 1981 en náði samt inn á lista rásar tvö yfir mest spiluðu íslensku lögin þrátt fyrir að hafa aðeins hálft árið til þess. Auðvitað var það að miklu leyti svolítill klíkuskapur, en þannig er það bara yfirleitt hjá útvarpsstöðvunum. Annað hvort eiga menn „vin“ þar inni eða hreinlega kaupa sér leið þar inn

Útkoman varð fjögurra laga plata sem kom út í júni ´81 og verð ég að segja að fáar plötur hafa elst jafn illa og hún. Samt náði lagið “Eftir ballið” sem Hafliði Guðmundsson gerði textann við, 15. sæti yfir mest spiluðu íslensku lögin það árið. Þökk sé vinum okkar hjá RUV sem héldu því ákaflega vel í spilun. Það var hins vegar lagið “Af litlum neista” sem stóð uppi sem sigurlag keppninnar, en það var samið af Guðmundi Ingólfssyni frá Hvammstanga. Það sem gerðist í kjölfarið hjá okkur Miðaldamönnunum var að þeir húsverðir og forsvarsmenn félaga sem höfðu samband eftir að platan kom út, spurðu ekki lengur hvað hljómsveitin kostaði eins og vaninn hafði verið hingað til, heldur hvort hún væri laus einhverja tiltekna helgi. Það hafði aldrei verið meira að gera og við vorum spilandi nánast hverja einustu helgi næstu tvö árin eða svo.

Í mars 1983 flutti Birgir úr bænum og því þurfti að bregðast við þar sem við vorum þá aðeins tveir eftir.

Sigló tríóið eða Miðaldamenn á tríótímabilinu. Ljósmyndari ókunnur

Þeir bræður Þórhallur og Dúi Benediktssynir gengu þá til liðs við okkur Sturlaug og æfingar hófust.
Ekki höfðu þær staðið lengi þegar Sturlaugur sagðist verða að segja okkur þau tíðindi að hann væri að flytja úr bænum alveg á næstunni, þetta hefði borið mjög brátt að, og frekari æfingar með honum hefðu því lítinn tilgang. Best væri að þetta lægi fyrir strax svo við gætum brugðist við.
Þórhallur og Dúi horfðu niður í gólfið og þögðu báðir þunnu hljóði. Ég var svo hissa að ég var alveg kjaftstopp því ég hafði talið að Sturlaugur væri sá sem einna síst væri líklegur til að flytja úr bænum af öllum mönnum.


Ég hafði samband við Magnús Guðbrands og tjáði honum hvernig málum væri nú háttað. Hann sagðist þá myndu hlaupa í skarðið þar til annar bassaleikari fyndist, en sagðist ekki vera mjög trúaður á þessa skrýtnu sögu.

Ég hafði strax samband við nýju meðlimina og tjáði þeim að ég væri búinn að fá mann í stað þess sem væri að hætta, en mér til mikillar furðu tóku þeir mjög dræmt í það og sáu öll tormerki á því að þetta væri nein lausn mála. Það kom líka á daginn því að næsta kvöld átti ég leið fram hjá Fúsa Bald bragganum þar sem við höfðum æft, en þá var búið að skipta um skrá og mátti einnig heyra að greinilega var búið að endurlífga hljómsveitina með sömu mönnum að mér undanskildum.

Stubbi & Stuðkarlarnir og spænska lagið.
Hljómsveitin Stubbi og Stuðkarlarnir varð til snemma árs 1983. Þar voru saman komnir Viddi Bö á bassa, Ingi Lár á gítar, ég spilaði á orgel og stjórnaði trommuheilanum, en svo var aðal sprautan söngvarinn “Stubbi” eða Kristbjörn Bjarnason. Við æfðum í kjallaranum á Aðalgötu 28 í herberginu undir videóleigunni sem var alveg ágætt nema það að hlerinn fyrir ofan tröppurnar var annað hvort svo lítill, eða hljóðfærin svo fyrirferðarmikil að það tók tímann sinn og reyndist hið mesta basl að komast með þau út og inn, eða réttara sagt upp og niður. Við vorum búnir að æfa upp nokkur lög þegar ég fékk nánast vitrun.

“Við verðum að taka Half as nice með hljómsveitinni Amen corner, veit annars nokkur um textann?” https://www.youtube.com/watch?v=foTwWg1CyWU Ég sagði þetta stundarhátt á einni æfingunni og reyndar nokkrum sinnum. Ég held það hafi jafnvel hljómað svolítið svipað og þegar Danny Crane nefndi nafnið sitt í sífellu í Boston Legal þáttunum hér um árið. Viddi vissi alveg hvaða lag þetta var en yngri strákarnir komu af fjöllum. Þetta lá síðan eins og mara á mér og ég hugsaði vart um annað en hvernig væri hægt að finna fjárans textann því þetta var löngu fyrir tíma Google. Kvöldið fyrir næstu æfingu fékk ég að mér fannst frábæra hugmynd sem ég taldi að bjargaði málunum.

“Gjörið svo vel, hér kemur textinn.”

Ingi Lár renndi lauslega yfir blaðið og leit svo á mig.

“Hvaða andskotans bull er þetta? Gvandó sjerra vaðe lúla eitthvað.”

“Er þetta spænskt lag?” Kristbjörn heyrði ekkert óeðlilegt við textann nema hann virtist vera á spænsku. Ég útskýrði fyrir strákunum að af því að þetta væri svo flott lag þá yrðum við að taka það, en vegna þess að við fyndum ekki textann þá hefði ég brugðið á það ráð að setja nokkur orð á blað sem hljómuðu eins og spænska, en lagið væri jú upphaflega spænskt. Þeim fannst þetta ágæt lausn nema að Ingi hafði einhverjar efasemdir.

“Ef það kemur nú Spánverji á ball hjá okkur, myndi hann ekki kjafta frá og allir gerðu síðan grín að okkur?”

“Spánverja myndi aldrei gruna að þetta ætti að vera spænska og svo er þetta algjört grín hvort sem er.” Ég taldi þetta góð og gild rök og það komu ekki fram fleiri athugasemdir. Lagið var svo æft og spilað á næsta balli. Ekki bara einu sinni, heldur aftur og aftur því það var alltaf verið að biðja um spænska lagið. Það var svo ekki fyrr en mörgum áratugum síðar að ég komst að því að lagið var upphaflega spænskt.

Stubbi & Stuðkarlarnir gáfu út þessa tveggja laga plötu senmma árs 1983

Auðvitað var svo brunað inn á Akureyri og tekin upp tvö lög í Stúdíó Bimbó og smáskífa með þeim var gefin út úti í Grímsey. Oddviti Grímseyinga Alfreð Jónsson og fyrrum skíðakappi frá Siglufirði veitti fyrsta eintakinu formlega viðtöku þegar bandið spilaði þar á balli í vikunni sem platan kom út. Þar var sungið um póstinn Jón sem var ferðbúinn snemma morguns og Stubbi söng um að hann væri táningur, enda var hann þá ekki nema 17 ára gamall. Platan seldist nánast upp bara á Siglufirði, en sáralítið annars staðar þrátt fyrir liðsinni öflugrar dreifimaskínu sem var Skífan. Við vorum hæstánægðir með útkomuna þó að hún geti ekki talist hafa elst mjög vel, en Dr. Gunni skrifaði eftirfarandi plötugagnrýni: “Stubbi og Stuðkarlarnir var eitt af þessum frábærlega hallærislegu böndum sem Stúdíó Bimbó á Akureyri gaf út örlí 80’s. Bandið var held ég frá Siglufirði. Aðalmennirnir voru Stubbi (Kristbjörn Bjarnason) og Leó Ólason sem samdi bæði lögin á smáskífunni sem kom út 1983. A-hliðin, Með kveðju til þín, er Geirmundarleg ballaða, en B-hliðin, Ég er táningur, er skemmtilegt stuðpopp. Ekki síst fer trommuheilinn “Þrusi” á kostum”.Öldin Okkar, Signa bandið og Gautar.
Bjarki var að vonum ósáttur við viðskilnaðinn við Miðaldamenn og var fljótlega komin aftur á kreik í nýstofnuðu hljómsveit sinni sem nefndist Öldin Okkar. Hann fékk til liðs við sig þá Stefán Friðriksson á gítar og Viðar Jóhannsson á bassa sem báðir voru búnir að koma við sögu í nokkrum Siglufjarðarböndum á árunum á undan, en nýliðinn í hópnum var Árni Bjarkason núverandi útibússtjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Hofsósi, en hann var munstraður á trommur. Ég mætti á fyrsta ball Aldarinnar sem haldið var á Höfninni, laumaði með mér litlu kassettutæki og tók upp klukkutíma prógram eða svo. Nýlega fann ég svo kassettuna eftir áratuga aðskilnað og kom efninu yfir á stafrænt form sem bíður þess að komast til þeirra sem þarna stóðu á sviði árið 1977, eða var það kannski 78? Það var ekki leiðilegt að upplifa þessa stund aftur með þessum eðaldrengjum. Eftir einhvern tíma flutti Viddi suður og Magnús Guðbrands kom þá til baka eftir svolítið hlé og spilaði með það sem eftir lifði bandsins. Stærsta verefni Aldarinnar á tónlistarsviðinu var samningur við Hótel Kea á Akureyri þar sem hún varð eins konar húshljómsveit í nokkra vetur.

Hljómsveitin Gautar um 1990. Ekki fann ég út hver ljósmyndarinn er, en sterkur grunur beinist að Steingrími Kristinssyni

Eftir að Öldin leið tók Magnús upp samstarf við Steinar Inga Eiríksson í nokkur ár, en þeir nefndu dúóið því skemmtilega nafni Signa bandið. Þeir félagar spiluðu heilmikið þó ekki færi alltaf mikið fyrir þeim. Maggi gekk síðan til liðs við Gautana og spilaði þar á trommur ásamt Elíasi Þorvalds, Þórhalli Ben og Sverri Elefsen, en sú landsfræga hljómsveit gekk í endurnýjun lífdaga á tíunda áratugnum. Síðar komu þar inn Sigurður Jóhannesson Stefán Friðriksson og Guðbrandur Gústfsson.

Magnús segir í viðtali nokkrum árum síðar:
Eftir Öldina Okkar fórum við Steinar Ingi að spila saman og höfðum talsvert að gera. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við spiluðum tveir á Hótel Höfn á Síldarævintýrunum 1992 og 93. Það var frítt inn, spilamennskan stóð yfir samfleytt í 5 tíma og húsið var alveg pakkfullt af fólki. Eftir að flestir voru farnir heim voru veggirnir blautir af svita og við reyndar líka. Það var frábært að spila með Inga jafn góður félagi og hann er vandfundinn.
1990 er ég farinn að spila á trommur í Gautunum og gerði það þar til um vorið 1991 þegar ég flyt suður. Við Ingi héldum samt áfram að spila saman þó við byggjum á sitt hvoru landshorninu og m.a. þó nokkrum sinnum hjá Magnúsi í Staðarskála fyrir gesti og gangandi. Það var ekki haft allt of mikið fyrir hlutunum þá, enda þurfti þess ekki lengur. Menn sjóast með aldrinum, mæta bara í giggið, stinga dótinu í samband og telja í.

Heimildarmenn: Baldur Jörgen Daníelsson, Steinunn Marteinsdóttir og Magnús Guðbrandsson.

Fyrri hluta ritraðarinnar “Poppað á Sigló” og fleiri greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.