Í tilefni af þátttöku Íslands í Evrópumeistarakeppninni í fótbolta 2022 skipuleggur menningar- og viðskiptaráðuneytið lestrarhvatningarherferð þar sem markmiðið er meiri lestur og fleiri boltasögur.  

„Nú er um að gera að setja sér metnaðarfull markmið. Við fylgjumst vel með stelpunum okkar á EM og styðjum þær með ráðum og dáð. Landsliðið er okkur mikill innblástur og að þessu sinni hverfist lestrarhvatningin um bæði lestur og sköpun,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og lestrarhestur.

„Það er svo mikilvægt að halda lestrinum við. Ef barn les ekkert yfir sumartímann getur orðið allt að þriggja mánaða afturför í lestrarfærni þess. Það þarf samt svo lítið til að börn viðhaldi færninni eða taki framförum, bara að lesa 4-5 bækur yfir sumarið, eða lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn. Hver mínúta skiptir máli – fyrir lestrarfærnina og tungumálið okkar.“

Hvatningin er tvíþætt en sérlegur talsmaður verkefnisins er rithöfundurinn og leikarinn Gunnar Helgason. 

„Ég vil hjálpa foreldrum og fjölskyldum að lesa meira, já og skrifa líka,“ segir Gunnar.

„Flestir þekkja hversu erfitt getur verið að muna eftir að lesa – það er svo margt í gangi á sumrin, sérstaklega hjá krökkunum. En við gerum þetta einfalt og skemmtilegt, og allir geta sett sér markmið! Svo verða til frábærar nýjar boltasögur.“

Verkefnin snúast um að lesa og/eða skrifa, en þar reynir á bæði samningatækni barna og fullorðinna og ritlist unga fólksins. 

Lesum leikinn: 

  • Nú lesum við leikinn almennilega og gerum samning við fjölskylduna okkar um að lesa fyrir hvern landsleik. Settu þér alvöru markmið og byrjaðu að lesa. Fjölskyldan ákveður í sameiningu verðlaun fyrir árangurinn. Á vefnum tímitiladlesa.is má finna atvinnumannasamning í lestri sem auðvelt er að prenta út. 

Skrifum söguna: 

  • Ertu 6-14 ára og langar til útlanda? Skrifaðu söguna! Sendu þína boltasögu á gunnihelga@timitiladlesa.is fyrir 18. júlí. Þú gætir unnið ferð á útileik með landsliðinu í haust. Skilyrði fyrir þátttöku er aðeins að sagan innihaldi bolta, hvernig bolta sem er! Gunni Helga les svo söguna þína og velur sigurvegarann auk fimm annarra sem fá miða á heimaleik stelpnanna okkar auk landsliðstreyju.

Mynd/aðsend