Landsmótinu á Sauðárkróki er lokið og þótti það takast vel. Mótið var opið fyrir alla 18 ára og eldri sem hafa gaman af því að hreyfa sig og stunda íþróttir. „Landsmótið á Sauðárkróki var sannkölluð íþróttaveisla. Við tókum stóra ákvörðun um að breyta Landsmótinu sem hafði verið haldið í meira en 100 ár í nánast óbreyttu formi. Það var frábært að sjá og heyra viðbrögð fólks við breytingunni. Það er alveg ljóst að framtíðin er fólgin í því að vinna frekar með þessar breytingar,“ sagði Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ að Landsmóti loknu.
Þátttakendur gátu valið úr tæplega 40 greinum allt frá nýjungum á borð við körfubolti 3:3, biathlon, brennó og fjallahjólreiða, bogfimi og pútts. Stígvélakast var að sjálfsögðu á sínum stað á síðasta degi mótsins.
Rúmlega 1.300 þátttakendur voru skráðir til leiks í ýmsar greinar og var úr nægu að velja. Ætla má að nokkur þúsund manns hafi fylgt með þátttakendum og var mótið einkennandi fyrir allan Sauðárkrók um helgina. Alla dagana voru íþróttir í boði á daginn og í gærkvöldi var skemmtikvöld með Geirmundi Valtýssyni og Pallaball á eftir sem tókst gríðarlega vel.
Nokkrir íbúar Fjallabyggðar tóku þátt í mótinu. Á laugardeginum var keppt í strandblaki og í aldursflokknum 30-49 ára lendu þær systur Sigríður Ósk og Helga Fanney Salmannsdætur í 3. sæti. Á mótinu kepptu einnig þær stöllur Ása Guðrún, Unnur Guðrún og þær frænkur Sólrún Anna Ingvarsdóttir og Hrafnhildur Guðnadóttir.
Einnig áttu íbúar Fjallabyggðar fulltrúa í götuhjólreiðum sem létu heldur betur að sér kveða þar sem hjólaðir voru 65 km. Fremstir í flokki fóru Haukur Sigurðsson og synir hans Hjalti Már og Kristján. Haukur sigraði í flokki 60+, Hjalti Már sigraði einnig í sínum flokki og Kristján tók bronsið í sínum. Við áttum fleiri fulltrúa í keppninni og má geta þess að Sævar Birgisson gönguskíðakappi nældi sér í silfur.