Ljóðasetrið hefur nú starfað í 14 ár, það var þann 8. júlí árið 2011 sem frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti setrið opið að viðstöddu fjölmenni.

Starfsemin hefur að mestu verið í sömu skorðum frá upphafi; opið yfir sumarið, tekið á móti hópum allt árið og lifandi viðburðir alla opnunardaga sumarsins kl. 16.00 þegar einhverjir eru til að njóta. Sumaropnun síðustu 2 árin hefur þó verið minni en oft áður og verður í framtíðinni meiri áhersla lögð á að taka á móti hópum og halda viðburði en að hafa fasta opnun.

Ljóðasetrið hefur einnig staðið fyrir fjölda viðburða utan setursins. Flestir þeirra á ljóðahátíðinni Haustglæður, sem setrið stendur fyrir í samstarfi við Ungmennafélagið Glóa, en einnig ýmsir aðrir ljóðaviðburðir og kynningar á starfsemi setursins bæði innanlands og utan.

Ljóðasetrið hefur átt gott samstarf við fjölda aðila í gegnum tíðina og má þar fyrst telja menntastofnanir í Fjallabyggð því mikil áhersla hefur verið lögð á að kynna börnum og ungmennum þennan merka arf okkar, einnig má nefna Síldarminjasafn Íslands, Herhúsfélagið, Kómedíuleikhúsið, Ungmennafélagið Glóa og ýmsa fleiri.

Tölfræðin er alltaf skemmtileg og til að gefa ykkur hugmynd um starfsemina síðustu 14 ár þá eru hér nokkrar staðreyndir:

# Um 14.000 gestir á setrinu frá upphafi

# Um 5.000 gestir á viðburðum utan setursins

# 170 hópar hafa heimsótt setrið og fengið fræðslu og skemmtan.

# Um 400 viðburðir hafa farið fram á Ljóðasetrinu.

# Um 100 viðburðir hafa verið haldnir á öðrum slóðum.

# Um 200 listamenn og skáld komu fram á þessum viðburðum.

Forstöðumaður frá upphafi er stofnandi setursins, Þórarinn Hannesson, og sér hann um allan daglegan rekstur, stýrir viðburðum, sér um viðhald hússins og ýmislegt fleira sem til fellur.

Reksturinn hefur frá upphafi verið í járnum. Fyrstu árin lagði forstöðumaður töluvert til úr eigin vasa svo draumurinn yrði að veruleika en síðari ár hefur þetta sloppið til að mestu.

Helstu styrktaraðilar Ljóðasetursins eru Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra og Fjallabyggð að ógleymdum Vinum ljóðsins sem greiða árgjald sem nýtist til reksturs setursins. Tökum við fagnandi öllum þeim sem vilja leggja setrinu lið segir á facebooksíðu setursins..

Hægt er að skoða fjöldann allan af myndum frá starfseminni síðustu 14 ár, hér.

Heimild/Ljóðasetur Íslands