Ljóðasetur Íslands hefur hlotið 1,7 milljónir króna í rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra fyrir árið 2026 í gegnum Sóknaráætlun landshlutans. Þetta er veruleg hækkun frá fyrri árum og þakkar setrið stuðninginn einlæglega. Í tilkynningu frá Ljóðasetrinu kemur fram að markmiðið sé að standa undir væntingum og halda áfram að efla starfsemina af metnaði og fagmennsku.
Styrknum er úthlutað til Félags um Ljóðasetur Íslands sem sér um rekstur setursins. Fram undan er fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá á nýju ári sem bætist við hefðbundið starf Ljóðasetursins.
Á næsta sumri verður ráðist í sérstakt átak í barnastarfi, líkt og síðast þegar verkefnið hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði árið 2022. Áherslan verður á sköpun, útivist, lestur og ljóðavinnu og verður unnið í samstarfi við aðila úr samfélaginu.
Að auki er áformað að bjóða upp á viðburði utandyra á góðviðrisdögum ásamt innanhússviðburðum eins og áður. Þá mun Ljóðmúrinn rísa á norðurgafli hússins og forstöðumaður setursins tekur þátt í ýmsum ljóðaverkefnum víða um land til að kynna starfsemina og efla ljóðlistina.
Ljóðahátíðin Haustglæður verður haldin í tuttugasta sinn á árinu 2026 og verður veglegri en nokkru sinni áður. Í tilefni tímamótanna verður gefið út rit sem rekur sögu hátíðarinnar. Hátíðin er haldin í samstarfi við Ungmennafélagið Glóa.
Ljóðasetur Íslands hefur starfað frá árinu 2011 og gegnir mikilvægu hlutverki í að kynna íslenska ljóðlist fyrir bæði innlendum og erlendum gestum. Setrið er opið yfir sumartímann en á öðrum árstímum er tekið á móti hópum með fræðslu, ljóðalestri og menningarviðburðum. Lifandi viðburðir eru á dagskrá klukkan 16 alla opnunardaga yfir sumarið og hafa fjölmörg helstu skáld landsins komið fram á setrinu ásamt heimamönnum.
Myndir: facebook / Ljóðasetur Íslands





