Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skrifar á facebook síðu sinni fróðlegar greinar um veður, loftslag og tengd mál. Nýlega birti hann í nokkrum hlutum mjög fróðlega umfjöllun sína um tengsl veðurfarsbreytinga og aflabrests á nokkrum nytjastofnum hér við land.

Hér á eftir fara þrjár greinar Einars um þessi málefni. (Birt með leyfi höfundar.)

Í þriðja hlutanum “LOÐNUBRESTINN MÁ LÍKLEGA REKJA TIL LOFTSLAGSBREYTINGA” fjallar Einar sérstaklega um loðnubrestinn.


ÁHRIF VEÐURFARSBREYTINGA Í SJÓNUM ERU GREINILEG (1) (birt 7. febrúar 2019)
Ég ætla í 3 til 4 færslum hér að beina sjónum að tengslum veðurfarsbreytinga við brest í nokkrum nytjastofnum hér við land, einkum humars og loðnu og líka þorsks. Við sögu koma einnig nýjar rannsóknir á þætti súrnunar sjávar m.a. á smákrabbadýr í lægri þrepum fæðukeðju sjávar. Þó að óvissan um tengslin séu veruleg, er smám saman að verða skýrari myndin í hugum þeirra sem velta þessu af alvöru fyrir sér. Áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið í sjónum hafa m.a. áhrif á tekjur okkar af nýtingu nytjastofna. Hugsanlega erum við þegar að horfa upp á verulegar efnahagslegar afleiðingar ?

HUMAR
Í Morgununblaðinu í dag [7. febrúar] er fjallað er um bágborðið ástand humarstofnsins úti fyrir Suðurlandi. Ofveiði er ekki kennt um heldur nýliðunarbresti. Fullorðinn humar þrýfst hins vegar ágætlega. Jónas Páll Jónasson fiskifræðingur hjá Hafró segir að ástandið tengist stærri breytingum í sjónum. Allir árgangar frá 2005 hafi verið mjög litlir.

Jónas Páll veltur upp þætti sandsílis og bresti í þeim stofni sem varð fyrir nokkrum árum. Eins tengir hann við hækkaða seltu í sjónum, en hún hafi nú heldur farið minnkandi. Hiti og selta jókst markvert undan Suðurlandi árin 1997-2003. Þó aðeins hafi dregið úr síðustu 3-4 árin er sjór enn talinn hlýr og selturíkur í sögulegu samhengi. Margt bendir tiil þess að hlýrri og saltari sjór suður af landinu hafi þannig neikvæð áhrif á viðgang humars.

TENGSLIN FLÓKIN OG EKKI AUÐSKILIN
Hins vegar er hluti hlýnuninnar tilkominn vegna náttúrulegrar sveiflu sem vel er þekkt, svokölluð AMO-sveifla eða breytileiki. Vísbendingar og mælingar sýna að toppnum í hita sjávar og seltu hafi verið náð 2010-2015. Síðan þá hafi kólnað lítillega í sjónum. Á móti vegur almenn hlýnun vegna loftslagsbreytinga. Síðan til að flækja málið enn frekar eru kenningar um hægfara veikingu hafstraumahringrásarinnar, sérstaklega í norðvestanverðu Atlantshafi. Snertir m.a. straumkvíslar sem koma úr suðri upp að landgrunnsbrúninni suðaustanlands og sveigja til vesturs. Óvissan um framtíðina er því talsverð og hægt að teikna upp nokkrar ólíkar sviðsmyndir ef út í það er farið.

Útflutningstekjur humars námu 3,5 milljörðum árið 2010 (á verðlagi þess árs), en 1,8 á síðasta ári. Verulegur hluti afurða er seldur innanlands og útflutningsverðmætið segir því ekki alla söguna. Aflamark næsta árs er ekki nema 1/10 hluti þess sem veitt var 2010 (2.465 tonn). Ljóst er að aflabrestur humars hefur talsverð áhrif á þjóðarbúið og ekki síst afkomu fólks í “humarbæjunum” þremur: Höfn, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.

*Hér er fín umfjöllun Fiskifrétta um ástand Humarsins frá því í vor: http://www.fiskifrettir.is/…/ekki-haegt-ad-utiloka…/146464/…

 


ÁHRIF VEÐURFARSBREYTINGA Í SJÓNUM ERU GREINILEG (2) (birt 9. febrúar 2019).

LOÐNA

Enn hafa engar fréttir borist af nýjum loðnugöngum og líkur fara hratt minnkandi úr þessu. Engar veiðar þýða tekjutap þjóðarbúsins upp á 16-18 milljarða króna miðað við síðustu þrjú árin. Nýliðunarbresti er einkum kennt um, en ekki síður breytingum í hafinu sem valda því að loðnan heldur sig sífellt norðar. Lengra hrygngingarferðalag suður með austurströndinni en áður var er loðnunni einfaldlega um megn. Nýjar hrygningarstöðvar sem a.m.k. hluti stofnsins velur sér norður af landinu virðast ekki skila sér í nýliðun.

Rannsóknir á loðnugöngum fyrir norðan land sýna greinilega annað mynstur eftir aldamót. Ungloðna þrýfst ekki lengur í sjónum fyrir norðan og vestan landið heldur nærist hún og vex að sumarlagi vestur við strönd Grænlands. Á þeim slóðum er miklu mun minni útbreiðsla hafís á sumrin og haustin en áður var.

STRAUMHVÖRFIN Í NÝLIÐUN
eru sláandi eftir aldamót, en vissulega eru árgangasveiflurnar svakalegar hjá loðnunni.

Þá er talað um aukið afrán á loðnulirfum og seiðum, mögulega með „ryksugu“-göngum makríls vestur af landinu undanfarin sumur. Minnkandi loðnustofn kemur ekki aðeins fram í minnkandi veiðum og tekjutapi. Verðum að hafa hugfast að loðnan er mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar. Með loðnunni flyst orka úr frumframleiðslu sumarsins norður í höfum inn á Íslandsmið og nýtist tegundum ofar í fæðukeðjunni. Sérstaklega fyrir þorsk, en líka er loðnan mikilvæg ufsa, grálúðu og fleiri nytjastofnum okkar.

HÖRFUN HAFÍSS Á EFLAUST STÓRAN ÞÁTT
Hlýrri sjór fyrir norðan frá því um aldamót ásamt hörfun hafíssjaðarsins til norðurs og vesturs á löngum tíma eru vafalítið meginorsakavaldar að þessum bresti í viðkomu loðnunnar. Á köldustu árunum með hafískomum að Norðurlandi fer stofninn líka í lægð. Því veldur almennur átubrestur fyrir norðan og mikið afrán m.a. sveltandi þorska. Best gengur í einhvers konar meðalástandi sjávar eins og ríkti 1972-1978 og aftur 1985-2001. Þá var afkoman góð og afli oft yfir 1 millj. tonna á ári.

 


ÁHRIF VEÐURFARSBREYTINGA Í SJÓNUM ERU GREINILEGAR (3) (birt 28. febrúar 2019)
LOÐNUBRESTINN MÁ LÍKLEGA REKJA TIL LOFTSLAGSBREYTINGA

Skýrt kom fram kom í fínu viðtali morgunútvarps RÁSar 1 við Þorstein Sigðurðsson á Hafrannsóknastofnun að hlýnun sjávar eigi sinn þátt í áföllum í loðnustofninum. Það eru umhverfisbreytingarnar, ungloðnan sækir í sjó með hita 1 til 3°C. Eftir að tók að hlýna í sjónum um og fyrir aldamótin færðust kjörskilyrði norðar og fjær hrigningarslóðinni í Faxaflóa og einkum úti fyrir Breiðafirði.

Það er skýrt að ofveiði er ekki um að kenna og heldur ekki sýkingum eða slíku sem gert hefur Íslensku sumargotssíldinni erfitt fyrir.

Sjávarhiti við landið og m.a. tengsl við hafstrauma og hafískomur er flókið samspil og alls ekki auðskilið.

Vil samt gera tilraun með að greina á milli þriggja megin áhrifaþátta, en þeir eru vitanlega fleiri.

1.
Langtímabreytileiki sjávarhita hér við land tengist AMO vísi sem nú er farið að kalla AMV-vísi. Sveiflur í hita og seltu úr suðri koma fram á 55-70 ára fresti. Toppur slíkrar sveiflu hefur verið áberandi í sjónum síðustu 15 árin eða svo. Á næstu árum sést betur hvort tekið sé að halla undan í þessari ágætlega þekktu sjávarhitasveiflu sem áður var í jákvæðum fasa um 1930.

2.
Hafískomum hefur fækkað mjög síðustu áratugi og raunar ekki verið landfastur svo heitið geti síðustu 30-35 árin. Þá liggur hafísjaðarinn að jafnaði fjær landi árið um kring en áður var. Hér er um að ræða langtímaþróun sem staðið hefur síðustu 100 árin og tengist klárlega hlýnun loftslags á norðurhjaranum.

3.
Veiking lóðréttu hafhringrásarinnar (AMOC). Þetta er sjálf hita- og seltuhringrás Atlantshafsins. Hægfara veiking hennar er talin skýra kalt sjávarhitafrávik í NV-Atlantshafi djúpt suðvestur af Íslandi. Þessi kólnun hefur enn sem komið er ekki náð hingað og áhrif jákvæða fasa AMV vísisins yfirgnæfandi. Þetta með veikingu AMOC er álitaefni í rannsóknum. Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá 2018 er þannig haldið fram að mælingar síðustu ára hefi ekki sýnt óeðlilegan samdrátt í AMOC hringrásinni (bls.74).

Loðnustofninn tók greinilega dýfu hér um aldamótin þegar sjórinn hlýnaði og ekki náð sér að gagni síðan. Mögulega kann ástandið að lagast þegar dregur úr áhrifum hlýsjávar í AMV sveiflunni. Hækkun sjávarhitans vegna hörfunar hafíssins vegur þó klárlega þyngra. Hér áður fyrr fylgdi kaldur yfirborðssjór í kjölfar komu hafíss inn á Íslandsmið. Pólsjór var þá einkennandi um hríð í stað Atlantssjávar.

Hitaskilin hafa einfaldlega færst norðar. Það eru skýr merki afleiðinga langtíma loftslagsbreytinga sem færir kjörskilyrðin norðar og fjær hrigningarslóð loðnunnar á landgrunninu.