Lögreglan á Norðurland eystra þakkar fyrir tillitssemina og kurteisina í umferðinni undanfarna daga.

Segja þeir meðal annars “Það er öllum ljóst að miklum snjó hefur kyngt niður á okkur undanfarna viku svo mörgum þykir nóg um. Skyggni er takmarkað, færð erfið og útsýni um götur og vegi skert. Þið hafið hins vegar staðið ykkur mjög vel í að gæta varúðar, sýnt kurteisi og tillitssemi í umferðinni svo eftir hefur verið tekið. Þetta viljum við þakka fyrir. Við viljum ennfremur biðja ykkur að sýna áfram þessa kurteisi og tillitssemi, því grun höfum við um að þetta kuldaskot og meðfylgjandi snjókoma séu nú ekki alveg á enda runnin.

Við biðjum ykkur líka að sýna þeim sem eru að aðstoða okkur við að komast áfram í umferðinni, snjóruðningsmönnum á tækjum sínum kurteisi og tillitssemi í hvívetna en við vitum að þeir gera eins og þeir geta. Eins biðjum við ykkur að sýna gangandi vegfarendum kurteisi og gæta vel að hvar og hvernig þið leggið bifreiðum ykkar”.