Það var hvítt yfir öllu í morgun á Siglufirði eins og meðfylgjandi myndband Steingríms Kristinssonar sýnir.
Þetta kuldakast á þó ekki eftir að standa lengi yfir og mun hlýna heldur betur í næstu viku. Lygilegra en orð fá lýst segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á heimasíðu sinni Blika.is.
“Það hefur vissulega verið heldur kalt að undanförnu. Meira heimskautaloft er á leiðinni og vorkuldinn nú nær hámarki á laugardag. Hægt þá að tala um raunverulegt hret. Éljamugga verður víða norðan- og norðaustanlands, líka á láglendi og fram á sunnudagsmorgunn.
Á fyrra kortinu af Brunni Veðurstofunnar má sjá töluna 14. Hún er vísir um mesta frostið í 850 hPa þrýstifletinum eða um 1.300 m hæð kl. 6 á laugardagsmorgunn. Spáð er fjögurra til sjö stiga frosti við yfirborð og á láglendi þessu samfara norðan- og austanlands. Blika.is spáir -6 á Egilsstöðum snemma á laugardag.
En hvað gerist svo ? Hitaskil ryðjast norður yfir land á mánudag og umskiptin veruleg. Á miðvikudag, 15. maí er á þessum sömu slóðum spáð +10°C þarna við Austurland. Það er hvorki meira né minna en það heitasta sem verður á þessum árstíma ?
Hlýnar um 24 stig í lofti (850 hPa þrýstifletinum) á ekki lengri tíma en 4 sólarhringum. Þetta er lygilegri sveifla en orð fá lýst. Háþrýstisvæði er spáð yfir eða hér og lítið um ský í landvind eystra. Þegar þegar nýi snjórinn verður að fullu farinn má gera ráð fyrir allt 20 stiga hita þar sem hlýjast verður við þessi skilyrði.”