Lesendur Trölla.is og hlustendur FM Trölla hafa kosið mann ársins í Fjallabyggð.

Frá 26. desember gafst lesendum Trölla.is kostur á að tilnefna þá manneskju sem sem skarað hefur framúr í Fjallabyggð 2020 að þeirra mati. Fjöldi tilnefninga hefur borist og hlaut Anna Hermína Gunnarsdóttir flestar tilnefningar.

Anna Hermína byrjaði að gefa þeim sem minna mega sín jólagjafir árið 2005 og hefur það aukist jafnt og þétt á þessum 15 árum. Í fyrstu voru það 20 – 30 gjafir sem hún gaf sjálf, en svo fóru fleiri og fleiri að taka þátt með Önnu og í ár söfnuðust 600 gjafir frá fólki í Fjallabyggð, 250 fóru á Norðurland og 350 til Reykjavíkur.

Anna Hermína sagði í stuttu viðtali: “Þegar ég er búin að fá tölvupóstinn um að gjafirnar hafi komist til skila eru jólin komin hjá mér.”
Trölli.is fékk góðfúslegt leyfi til að birta mynd af staðfestingarpóstinum frá Lindu verkefnastjóra á Norðurlandi (sjá neðar).

Það sem skrifað var af lesendum til stuðnings tilnefningar Önnu Hermínu hefur verið vel rökstutt og hér að neðan má sjá nokkrar færslur.

 • Fyrir góðvild og hjartagæsku við að safna fyrir þá sem minna mega sín.
 • Frábærs framtaks í þágu barna og fjölskyldna sem minna mega sín.
 • Fyrir góðvild og hjartagæsku við að safna fyrir þá sem minna mega sín.
 • Fyrir söfnun handa fátækum
 • Anna hefur í nokkur ár safnað jólagjöfum fyrir þá sem minna mega sín og hefur ekki hátt um það
 • Hún sýnir í verki kærleik gagnvart náunganum sem er sjalgæft nú til dags
 • Fyrir góðgerðastörf
 • Vegna dugnaðar að aðstoða þá sem eiga við fátækt að stríða
 • Vinnur fyrir samfélagið og fátæka
 • Fyrir hjálparstarf í þágu þeirra sem minna hafa
 • Styður við þá sem eiga lítið
 • Hugsjónakona sem miðlar gleði og kærleik
 • Anna Hermína vinnur að góðgerðamálum og er alltaf tilbúin að aðstoða þá sem eiga erfitt

Trölli.is óskar Önnu Hermínu til hamingju með kjörið.