Góðir íslendingar og aðrir nærsveitamenn!

Í dag verður sendur út ára- og tímamótaþáttur Andans Truntna á FM Trölla.
Áramóta – vegna þess að nú eru áramót.
Tímamóta – vegna þess að þetta er fyrsti áramótaþáttur truntnanna.

Að þessu sinni verður þátturinn sendur út að loknum lestri jóla- og áramótakveðja, aukinheldur gamlársdagskveðju frá Siglufjarðarkirkju, eða frá klukkan 18 til rúmlega 20.

Að venju munu trunturnar láta gamminn geysa og fara um víðan völl í gaspri sínu, öngvum til góðs og öllum til ama og leiðinda (nema þeim sjálfum, auðvitað!) enda eru Andans Truntur einhver sjálfhverfasti og sjálfmiðaðasti útvarpsþáttur allra tíma.

Litið verður yfir farinn veg, örlög ársins leikin öllsömul, og í fullri lengd, og talað um það sem kemur upp í hugann, og jafnvel það sem ekki kemur upp í hugann.

Andans Truntur senda hlustendum sínum einlægar og frómar óskir um gleðilega hátíð, og með þökk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða (eða þessar fáeinu vikur allavega).

Og hér kemur rúsínan í pylsuendanum: Þátturinn verður framvegis á dagskrá á miðvikudögum á milli klukkan 18 og 20, ekki lengur á fimmtudögum.

Messufall verður í fyrstu viku nýs árs, og munu trunturnar þrjár snúa tvíefldar til leiks að nýju miðvikudaginn 13. janúar.

Trunturnar hlakka óstjórnlega til að hitta ykkur, kæru hlustendur!