Mæðradagurinn er Alþjóðlegur dagur mæðra og heiðrun þess að vera móðir. Á Íslandi er haldið upp á hann annan sunnudag í maí.

Dagurinn á sér þó ekki einn alþjóðlegan mánaðardag eða mánuð en oftast er haldið upp á hann í mars, apríl eða maí. Algengast er að þjóðir láti hann bera upp á annan sunnudag í maí (8. til 14.) ár hvert og þannig er það hérlendis.

Dagar helgaðir mæðrum og dýrkun mæðragyðja eru þekktir frá Fornöld og mæðradýrkun tíðkaðist í Litlu-Asíu fyrir þúsundum ára. Þaðan barst hún til Grikklands og áfram til Rómaveldis. Með kristni þróaðist mæðradýrkunin yfir í dag til dýrðar Maríu guðsmóður og öðrum mæðrum og var sá dagur fjórði sunnudagur í Lönguföstu.

Víða komst á sá siður að börn gæfu mæðrum sínum blóm eða gjöf þennan dag. Smátt og smátt dró þó úr því að þessi dagur væri haldinn hátíðlegur en hann viðhélst þó að einhverju leyti á Bretlandi og Írlandi. Hann var svo endurvakinn á 20. öld og rann þá saman við Mæðradaginn sem þá hafði komist á í Bandaríkjunum og breiðst út þaðan en Bretar og Írar halda gömlu tímasetningunni á deginum.

Forsíðumynd/ Kristín Magnea Sigurjónsdóttir með sonum sínum
Heimild/ Íslenskt Almanak