Ég rölti áleiðis upp gamla Skarðsveginn Fljótamegin núna siðsumars, því ég var forvitinn um aurskriðu sem ég hafði heyrt af að hefði fallið þar. Hún var vissulega á sínum stað og engar ýkjur um það, en það var annað og heldur óskemmtilegra sem bar þarna fyrir augu mér fannst eiginlega mun stærra mál og verðugt til umhugsunar.

Talsvert hefur verið rætt undanfarið um að tími væri kominn á ný göng sem tengdu Siglufjörð og Fljót og ekki af ástæðulausu. Hefur þá jarðsigið oftast verið nefnt til sögunnar sem meginástæða, en ástæðulaust er að gleyma því að þarna hafa einnig snjóflóð, grjóthrun og skriðuföll verið nokkuð tíð.

Á þeim hluta Siglufjarðarvegar sem liggur um Almenningana hefur jarðsigið yfirleitt verið lagað jafnóðum og það hefur verið farið að verða til trafala, en öðru máli gegnir um Skarðsveginn þar sem hann er ekki í notkun. Þar hefur jarðsigið framkallað eins konar misgengi og skorið veginn í sundur þannig að eftir standa tveir vegendar sem standast ekki lengur á, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Fyrir vantrúaða skyldi maður ætla að þessi ábending að duga þeim til að taka trú á ný göng og bjartari framtíð.