Íslensk landnámshæna sem kann ekki að synda.
Ljósmynd: Minnie Leósdóttir (yngri).

Eftirfarandi sögur eru að mestu leyti sannar  þótt ótrúlegt sé, eða í það minnsta svona í grundvallaratriðum.

Einhverju hefur þó verið lítillega breytt, en þó engum aðalatriðum, nema þær eru kannski lítillega færðar í stílinn til að gera þær skemmtilegri aflestrar.

Eina tengingin við Siglufjörð gæti verið hænsnfuglinn sem verður þó að teljast fremur veik tenging því hann er vissulega til staðar á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum í henni veröld.

Við sem erum komin til vits og ára eigum að þekkja þá tíð þegar sá galandi fugl var betur og meira sýnilegur en í nútímanum þegar hann er undantekningalítið lokaður inni í eins konar alifuglaverksmiðjum alla sína gleðisnauðu daga.

Þegar hugurinn leitar til hænsnfuglanna, koma gjarnan upp í hugann snillingar eins og Júlli Gull, Óskar Sveins, Holli Dýrfjörð, Páll Jónsson kenndur við Hótel Höfn, að ógleymdum Hinrik Thorarensen, en eflaust margir fleiri ef grant er skoðað og vel er leitað.

Þessi stórskemmtilega útfærsla á hænsnahúsi var nótabátur á hvolfi sem hlaðið hafði verið undir, var í eigu Óskars Sveinssonar. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Margar sögur eru til af Tóra eins og hann var jafnan kallaður, sem var sérmenntaður barnalæknir, en sagði starfi sínu lausu því hann hafði miklu meiri áhuga á bissness en læknisstörfum. Hann kom víða við í viðskiptum sínum og rak læknastofu í einhver ár eftir að komuna til Siglufjarðar, sinnti lyfsölu, var ritstjóri bæjarblaðsins Framtíðarinnar, var með umboð Tóbaksverslunar Ríkisins, keypti Hótel Siglunes, rak skóverslun, kaffihús og veitingastaði, alla vega tvær sjoppur, síldarplan og svo auðvitað Nýja Bíó. En til er skemmtileg saga um hann og hænsnabúið sem hann sagðist reyndar reka meira sér til skemmtunar og dægrardvalar en ágóðavonar.

Tóri var með nokkuð stórt hænsnabú í kofa upp í fjalli fyrir ofan gryfjurnar svokölluðu, en kjúklingana hafði hann í eða við hliðina á sýningarklefanum í bíóinu. Á þessum tíma voru bíómyndirnar yfirleitt enn þá þöglar og það var engu líkara en að kjúklingarnir fyndu á sér þegar dramatískustu atriðin dúkkuðu upp á hvíta tjaldinu og brugðust þá við af hinum mesta kvikindisskap. Sýningargestir héldu niðri í sér andanum þegar maður og kona nálguðust hvort annað allt þar til varir voru í þann veginn að mætast. Þá heyrðist gjarnan hávært gal frá sýningarklefanum og þar með var rómantíkin á bak og burt.

Hinrik Thorarensen hænsnabóndi með meiru eða bara Tóri eins og hann var gjarnan kallaður.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Önnur saga sem við gætum rifjað upp svona sem bónus fyrst við erum byrjuð að tala um Tóra á annað borð, en hún er til í nokkrum útgáfum en í aðalatriðum er hún einhvern vegin svona:

Sjómaður nokkur hafði misst af skipinu sem hann var á, því hann hafði farið eitthvað óvarlega í samskiptum sínum við Bakkus konung. Hann hafði ráfað um bæinn kófdrukkinn og að ending lá leið hans niður á bryggju þar sem hann datt í sjóinn.  Einhverjir komu þar að og björguðu honum um borð í annað skip, þar sem fötin af honum voru þurrkuð meðan hann svaf af sér ölvímuna. 

Þegar hann vaknaði áttaði hann sig á að hann hafði misst af sér bússurnar þegar hann datt í sjóinn og skórnir höfðu farið með skipinu sem hann hafði verið á.  Hann fékk lánaða skó hjá einum skipverjanna og setti sig í samband við umboðsmann bátsins sem hann var á, sem útvegaði honum svolítið fé og benti honum á að hann skyldi fá sér herbergi á Hótel Siglunesi sem væri í eigu Thorarensen.  Báturinn væri á veiðum austur af Grímsey og kæmi væntanlega næsta dag aftur til Siglufjarðar.

En næst lá fyrir að kaupa sér skó og bússur. Hann mætti fljótlega manni uppi í bæ sem hann spurði hvar hann gæti keypt fótabúnaðinn.
Hjá Thorarensen svaraði maðurinn.

En hvar gæti hann fengið eitthvað sterkt til að ná úr sér mesta hrollinum eftir fylleríi gærdagsins?
Hjá Thorarensen svaraði maðurinn aftur. Hann getur örugglega reddað þér um smá spíralögg.

Þetta fannst sjóaranum skondið, en allt gekk þetta eftir. Hann fór því næst og festi sér herbergi á hótelinu hans Thorarensen og fékk í leiðinni að vita hver eigandinn væri. Hann var nú orðinn svangur og fékk sér að borða á nálægum veitingastað. Þar sá hann stóran og stæðilegan mann sem gekk um eins og hann ætti staðinn.

Hann spurði þá þernuna svona af forvitni hver þetta væri. 
Þetta er hann Thorarensen sem á staðinn, svaraði stúlkan.
Þetta fannst sjóaranum ekki einleikið.

Tíminn getur verið lengi að líða þegar menn hafa fátt fyrir stafni og nú datt okkar manni í hug að drepa tímann með því að fara í bíó. Hann spurðist fyrir um  hvar bíóið væri og var þá bent á Nýja Bíó. Þegar hann kom þangað sá hann Thorarensen aftur og spurði miðasalann svona í gríni hvort Thorarensen ætti bíóið. Svarið var auðvitað já sem var ekki alveg það sem okkar maður bjóst við rétt einu sinni enn. 

En eftir að sýningu myndarinnar lauk, frétti hann af dansleik á Hótel Siglunesi. Á leiðinni þangað rifjaðist upp fyrir honum að umræddur Thorarensen ætti jú Hótelið þar sem hann átti líka pantað herbergi, og hann hugsaði með sér hvort þessi Thorarensen ætti hreinlega allt í þessum bæ.

Hann fór á dansleikinn, en lenti þar í slagsmálum sem lauk með því að sjómaðurinn var fluttur rænulítill og illa til fara til læknis. Hann rankar við sér þegar verið er að gera að sárum hans og sér þá andlit Thorarensen. Honum brá illa og var þess fullviss um að nú væri hann kominn með tremma á slæmu stigi. Hann nuddaði augun, opnaði þau síðan varlega aftur og enn sá hann andlit Thorarensen fyrir framan sig.

Ertu kannski læknir líka, spurði sjóarinn vantrúaður.
Jú, jú svaraði Thorarensen, en þá leið yfir sjóarann. 

Þegar hann svo raknaði við sér fékk hann aðstoð við að komast í ró, en íhugaði um morguninn þegar hann vaknaði hvort ekki væri kominn tími til að hætta að drekka. 

Hann fékk sér hádegissnarl í sjoppu í grenndinni þar sem hann sá Thorarensen að tala við stafslið sitt. Hann spurði einskis að þessu sinni, en hristi bara höfuðið. 

En nú var báturinn hans kominn að bryggju, búið var að landa og stutt í að lagt yrði af stað í næstu veiðiferð. Sjóarinn stóð á þilfari þegar Thorarensen kemur gangandi fram á bryggjusporðinn.

Hvað er þessi maður að gera hérna spurði hann félaga sína.
Nú þetta er hann Thorarensen og við vorum að landa hjá honum.



En förum þá að koma okkur að efninu…
Það var vor í lofti og ég hafði vaknað snemma þennan sunnudagsmorgun. Himinninn var eins blár og hann getur frekast orðið og sólin hellti geislum sínum yfir lönd og höf. Ég opnaði gluggann, horfði út á grasflötina fyrir framan húsið og heyrði að það voru fleiri vaknaðir en ég.

Fuglasöngur rauf kyrrðina sem lá yfir bænum eins og silkimjúkt teppi. Innan dyra var hins vegar grafarþögn og engin hreyfing. Skyndilega heyrðist daufur dynkur við hliðina á mér þegar kötturinn stökk upp á borðið og teygði trýnið upp að opnum glugganum. Hann hafði heyrt fuglasönginn fyrir utan og sýndi þessum hljóðum talsverðan áhuga. Hann mjálmaði hljóðlaust og veiðihárin titruðu lítillega þegar hann skimaði eftir einhverri hreyfingu í trénu sem teygði sig upp með húsveggnum.

Ég settist niður við eldhúsborðið og fékk mér meira kaffi. En fylgdist áfram með kisa sem gægðist út en fannst líklega of langt frá glugganum og niður til jarðar. Eftir að hafa notið útsýnisins um stund, stökk hann niður á gólfið og stillti sér upp við tóman dallinn sinn og mjálmaði aftur. En í þetta sinn varð það ekki hljóðlaust og hann horfði á mig eins og hann vildi koma einhverjum mikilvægum skilaboðum til mín. Ég skildi alveg inntakið og meininguna og beygði mig eftir fötunni með þurrfóðrinu og hellti svolitlu í matarílátið hans.

Á svona morgnum er ekki hægt að fara að sofa aftur því þeir eru einfaldlega of góðir til þess. Þeirra ber að njóta til hins ýtrasta og reyna að fá sem allra mest út úr þeim. Ég stóð upp og gekk til dyra. Á leiðinni út teygði ég mig eftir jakkanum og renndi mér í skóna á pallinum fyrir framan dyrnar.

Fáum mínútum síðar var ég sestur undir stýri og lagður af stað eitthvað út í buskann. Ég vissi svo sem ekkert hvert ferðinni væri heitið, heldur ók bara beint af augum. Ég skrúfaði niður rúðuna og setti olnbogann út um gluggann. Ferskur blærinn lék um mig og toppurinn lyftist frá enninu.

Skyldi vera búið að opna nokkra ísbúð svona snemma?
Líklega var það nú ekki svo.

Ég var búinn að aka í heilar 10 mínútur þegar ég mætti loksins bíl. Hann hlaut að vera á leiðinni suður á völl. Fyrir utan fólkið sem í honum var og virtist vera nývaknað og svolítið grámyglulegt að sjá, mátti greina nokkrar ferðatöskur sem hafði verið staflað hverri ofan á aðra í aftursætinu.

En að vera að fara héðan á svona góðum degi?

Eftir svolitla stund var ég kominn niður að gamla Iðnó. Svolítil kvak og skvamphljóð bárust inn um bílgluggann sem enn var galopinn, en síðan önnur hljóð sem mér fannst ekki falla alveg eins vel að morgunkyrrðinni. Ég gat ekki betur heyrt en einhver undarleg hróp og köll blönduðust inn í fuglakvakið og forvitni mín var vakin. Ég beygði inn á Lækjargötuna, lagði bílnum og gekk að tjörninni. Tvær ungar stúlkur voru greinilega eitthvað ósáttar við mann á miðjum aldri sem stóð úti í tjörninni og hélt á hænu.

Ég deplaði augunum nokkrum sinnum og velti fyrir mér hvort mér hefði virkilega ekki missýnst, en svo reyndist ekki vera.

Maðurinn sem virtist vera fastur í leðjunni á botni tjarnarinnar var greinilega eitthvað að skammast út í stelpurnar sem tóku því ekki vel og lásu honum pistilinn á móti.

“Andstyggilega blóðuga kjötætan þín, ætlarðu ekki að leyfa hænunni að njóta þess að vera frjáls innan um hina fuglana” hrópaði önnur stúlknanna.
“Ætlarðu kannski að éta hana á staðnum” bætti hin við.
“Fíflin ykkar, ætlið þið að drekkja hænunni” þrumaði maðurinn á móti.
“Réttast væri að rassskella ykkur” bætti hann við.
“Já, var það ekki. Þú ert þá líka perri karlpungurinn þinn” sagði sú sem fyrr hafði talað.

Ég fikraði mig nær og sperrti eyrun, en reyndi samt að láta ekki mikið á mér bera. Þetta virtist vera hin undarlegasta uppákoma og ég vildi gjarnan vita meira um hvað hér væri á seyði.

En þær stöllur komu fljótlega auga á mig og snéru sér þá að mér. Þeim var mikið niðri fyrir og töluðu ýmist til skiptist eða báðar í kór.

“Viltu hjálpa okkur að láta klofblauta perrann þarna sleppa hænunni okkar?”
“Við ætluðum að frelsa hana og leyfa henni að synda á tjörninni með hinum fuglunum, en þá kom karlfíflið og óð út í og náði henni.”
“Og hann vill ekki sleppa henni aftur.”
“Það eiga öll dýr rétt á því að vera frjáls.”
“Já, og það ætti aldrei að setja dýr í búr.
“Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við.
“Eigið þið þessa hænu” spurði ég svolítið hikandi.

Þær litu hvor á aðra og þögnuðu, en aðeins andartak.
“Nei sko, við fórum í nótt og hleyptum út helling af hænum út úr einhverjum hænsnakofa.”
“Okkur finnst að það eigi ekki að loka dýr inni.”
“En við náðum svo bara einni og settum hana í bílinn.”
“Og slepptum henni hér.”
“Reyndar skeit hún í aftursætið á bílnum.”
“Við borðum heldur alls ekki kjöt.”
“Eða við erum alla vega hættar því.”

Ég velti fyrir mér hvort þær væru annað hvort drukknar eða á einhverjum lyfjum, en gat ekki séð að um neitt slíkt væri að ræða.

“Hentuð þið svo hænunni í tjörnina?” Ég gat ekki leynt undrun minni.

“Já auðvitað, þetta er miklu náttúrulegra umhverfi fyrir hana.”
“Hérna fær hún að vera innan um sína líka, endur, gæsir, máva og svoleiðis.”
“Og við erum ekki hættar, við erum eiginlega rétt að byrja.”
“Byrja?” Ég komst ekki lengra því þær tóku strax af mér orðið.
“Já, við ætlum að halda áfram að frelsa dýr”
“Og fá fleiri með okkur.”

Það hafði ekkert heyrst í manninum meðan þær létu dæluna ganga, en honum hafði nú tekist að brjótast upp úr leðjunni á tjarnarbotninum, stóð á bakkanum og talaði í gemsa.

Hænunni  hafði nú tekist  að losna úr fangi hans og tók sprettinn eftir brúnni rakleiðis að Ráðhúsinu. Hann hljóp á eftir henni en náði henni ekki fyrr en við aðaldyr hins reisulega og virðulega húss. Þetta var reyndar svolítið spaugilegt allt saman og ég gat ekki annað en flissað.

“Þetta er ekkert fyndið.” Önnur stúlknanna hleypti í brýrnar.
“Hvað eruð þið eiginlega gamlar?” Ég gat ekki betur séð en að þær ættu báðar að vera komnar af óvitaaldrinum.
“Við erum báðar 17” svaraði önnur að bragði.
“Hvaða máli skiptir það. Ert þú kannski líka perri fíflið þitt?”

Nú fjölgaði í hópnum því tveir laganna verðir komu röltandi fyrir hornið á Iðnó.

Maðurinn kom í sama mund gangandi frá Ráðhúsinu, illa til reika en með hænuna í fanginu.

Hinir uppáklæddu opinberu starfsmenn horfðu furðu lostnir á hann og síðan stúlkurnar tvær.

Eftir að hafa spurt lítillega út í þessa undarlegu uppákomu, virtust þeir átta sig á helstu atriðum málsins.”

Stúlkur, viljiði ekki koma aðeins og spjalla við okkur?”
Og þær voru nú heldur betur til í að tala máli hænunnar og réttlætisins.
“Þið verðið líka að taka þessa tvo perrakarla og loka þá inni” var það síðasta sem ég heyrði frá þeim.

Annar “lögginn” spurði klofblauta manninn með hænuna hvort hann væri til í að hinkra með “sundfuglinn” í fáeinar mínútur þar til annar bíll kæmi.

Hann jánkaði því og við stóðum þarna þrjú eftir. Ég, blauti maðurinn og hænan.

“Vantar þig nokkuð svona hænu” spurði hann og glotti dauflega.

“Nei, ég á kött og læt það duga í bili” svaraði ég.

Svo gekk ég áleiðis að bílnum.

Þegar heim var komið fékk ég mér meira kaffi og brauðsneið með kjúklingaáleggi.

E.S. Bestu þakkir til Gullu Ásgeirs fyrir innblásturinn.