Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun 2023 og 2024-2026 ásamt tillögu að framkvæmdum fyrir árið 2022 á 769. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu að fjárhagsáætlun 2023 og 2024-2026 ásamt tillögu að framkvæmdum ársins 2023 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Erindum vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2023.

Tekið til afgreiðslu óafgreidd erindi sem bæjarráð hafði vísað til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar 2023.

1.
2210100 – Fjárhagsáætlun Slökkviliðs Fjallabyggðar 2023
Á 765. fundi bæjarráðs var erindi slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar um endurnýjun á lausum fjarskiptabúnaði og reykköfunarbúnaði vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2023 og 2024.

2.
2210086 – Sameiginleg verkefni og kostnaður þeirra fyrir fjárhagsáætlanagerð stafrænna sveitarfélaga árið 2023
Á 765. fundi bæjarráðs var erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem lögð var fram kostnaðaráætlun vegna þátttöku og framlög sveitarfélaga til stafræns samstarfs 2023 vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2023.

3.
2210059 – Erindi Golfklúbbs Fjallabyggðar til bæjarráðs vegna fjárhagsáætlunar 2023
Á 764. fundi bæjarráðs var erindi Golfklúbbs Fjallabyggðar varðandi áframhaldandi samstarf um uppbyggingu á Skeggjabrekkuvelli vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð þakkar Golfklúbbi Fjallabyggðar fyrir greinargott og metnaðarfullt erindi. Á næstunni verður fulltrúum íþróttahreyfingarinnar boðið til samtals um uppbyggingu íþróttainnviða til framtíðar.

4.
2011052 – Fundargerðir – svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar 2018-2022
Á 764. fundi bæjarráðs var fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndarinnar vegna 2023 vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2023.

5.
2204013 – Erindi frá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar vegna aðstöðuleysis
Á 763. fundi bæjarráðs var ósk knattspyrnufélagsins um þátttöku sveitarfélagsins í kostnaði sem til fellur vegna æfinga meistaraflokks utan sveitarfélagsins vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Afgreiðslu frestað. Erindið verður tekið fyrir á næsta fundi bæjarráðs til afgreiðslu.

6.
2210018 – Útivistarsvæði við Hól
Á 762. fundi bæjarráðs var erindi frá barna- og unglingaráði Knattspyrnufélags Fjallabyggðar varðandi hreinlætisaðstöðu við Hól vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð þakkar barna- og unglingaráði Knattspyrnufélags Fjallabyggðar fyrir greinargott erindi. Á næstunni verður fulltrúum íþróttahreyfingarinnar boðið til samtals um uppbyggingu íþróttainnviða til framtíðar.

7.
2210013 – Stuðningur við Flugklasann Air66N
Á 762. fundi bæjarráðs var erindi frá Markaðsstofu Norðurlands, varðandi starfsemi flugklasans Air66N á Norðurlandi vísað til gerðar fjárhagsáætlunar. Óskað er eftir áframhaldandi aðkomu sveitarfélagsins að verkefninu með framlagi sem nemur kr. 300 á hvern íbúa á ári í þrjú ár (2023-2025).

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2023.

8.
2209007 – Erindi til bæjarráðs
Á 758. fundi bæjarráðs var ábendingu Kristjáns Haukssonar um aðkomu að frístundabyggð á Saurbæjarási vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Erindinu er vísað til úrvinnslu í tæknideild.

9.
2208050 – Rafhleðslustæði á bílaplani við Hól
Á 758. fundi bæjarráðs var erindi Gunnlaugs Arnarsonar, f.h. Siglóhóls ehf., er snýr að merkingu bílastæða og lýsingar við Hól vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

10.
2208043 – Ósk um fjárstuðning við kaup á nýju björgunarskipi
Á 757. fundi bæjarráðs var beiðni Björgunarbátasjóðs Siglufjarðar um fjárstyrk vegna kaupa á nýju björgunarskipi vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.
Erindið var kynnt á fundi bæjarráðs. Óskað er eftir sambærilegum styrk og Vestmannaeyjabær studdi nýtt björgunarskip þar. Hvert skip kostar 285 milljónir. Ríkið greiðir helming kostnaðar fyrstu 10 skipanna. Sjóvá hefur samþykkt að greiða 142 milljónir til fyrstu þriggja skipanna. Okkar skip verður númer 2 í afhendingu og leysir gamla Sigurvin af hólmi. Bæjarstjóri hefur fengið afrit af samningi sem Vestmannaeyjabær gerði til 5 ára þar sem verkefnið var styrkt samtals um 35 milljónir króna.

Bæjarráð samþykkir að veita kr. 5.000.000 til verkefnisins á fjárhagsáætlun ársins 2023 og felur bæjarstjóra að útbúa drög að samningi til næstu sex ára, að heildarupphæð kr. 30.000.000.

11.
2208049 – Ósk um styrk – Vitar og strandmenning
Á 756. fundi bæjarráðs var styrkumsókn Vitafélagsins, sem óskar eftir styrk í tengslum við útgáfu á spilastokk með myndum af vitum landsins vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

12.
2208036 – Styrkbeiðni vegna reksturs Aflsins 2022
Á 755. fundi bæjarráðs var styrkbeiðni Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð samþykkir að veita Aflinu styrk að upphæð kr. 60.000.-.

13.
2208034 – Erindi til bæjarstjórnar – samgöngur
Á 755. fundi bæjarráðs var erindi frá Kristínu Margréti Halldórsdóttur vegna samgangna milli bæjarkjarna vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð þakkar Kristínu fyrir erindið, en sér sér ekki fært að verða við fjölgun ferða að svo stöddu. Fjallabyggð lýsir yfir áhuga um samstarf við aðila sem myndu bjóða almenningi upp á ferðir milli byggðakjarna.

Helgi Jóhannsson fulltrúi H-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
H-listinn hefur verið með það á sinni stefnuskrá að bæta samgöngur milli byggðakjarnana og mundi gjarnan vilja sjá að farið verði í þá vegferð hjá Fjallabyggð.

14.
2208031 – Ósk um styrk 2022 – Félag heyrnarlausra
Á 755. fundi bæjarráðs var styrkbeiðni frá félagi heyrnarlausra vegna þátttöku heyrnarlausra ungmenna og leiðbeinanda á vegum félagsins á Norðurlandamót og Evrópumót ungmenna á aldrinum 8-15 ára vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

15.
2211040 – Samstarfssamningur milli Fjallabyggðar og Skógræktarfélags Siglufjarðar
Skógræktarfélagið hefur sent inn erindi þar sem farið er fram á hækkun á árlegum styrk í 600.000 kr.

Bæjarráð samþykkir að veita Skógræktarfélagi Siglufjarðar hækkun á samstarfssamningi upp í kr. 600.000.-.

16.
2210033 – Betri Fjallabyggð – samráðsvettvangur íbúa
Minnisblað skipulags- og tæknifulltrúa dags. 14.10.2022 þar sem fjallað er um samráðsvettvang sveitarfélagsins og íbúa og lagt til að notast verði við kerfi Betra Íslands og hefja með því samráð við íbúa varðandi umhverfisverkefni sveitarfélagsins. Erindinu var vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir 2023.

Bæjarráð samþykkir að hefja innleiðingu á samráðsvettvanginum Betri Fjallabyggð.

17.
2203002 – 17. júní 2022
Fyrir liggur greinargerð um framkvæmd og uppgjör 17. júní 2022 en hátíðin var í höndum ungliðasveitarinnar Smástráka. Erindinu var vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2023. Bæjarráð felur bæjarstjóra að útbúa og undirrita samstarfssamning við Smástráka til þriggja ára.

18.
2211056 – Ábending vegna fjárhagsáætlunar 2023, mokstur á reiðvegum.
Erindi hestamannafélagsins Gnýfara er snýr að þeirri ósk félagsins að þegar mokað er frá Brimvöllum að reiðskemmu verði afleggjarinn upp í efnisnámuna og gamli afleggjarinn að Kleifarvegi einnig mokaðir. Erindinu var vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2023.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

19.
2211060 – Ábending vegna fjárhagsáætlunar 2023, lagfæring reiðvegar.
Erindi hestamannafélagsins Gnýfara þar sem óskað er eftir því að Fjallabyggð leggi til kr. 225.000 vegna endurnýjunar á ræsisrörum í reiðvegi frá Lagarengi fram að Garðsá. Erindinu var vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð leggur til að athugað verði hvort verkefnið rúmist innan þeirra fjárheimilda sem var veitt til svæðis Hestamannafélagsins Gnýfara vestan Ólafsfjarðar óss (mál nr. 2208005).

20.
2211061 – Ábending vegna fjárhagsáætlunar 2023, aðkoma að skuldastöðu.
Erindi hestamannafélagsins Gnýfara þar sem óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins að skuldastöðu félagsins. Erindinu var vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

21.
2211055 – Endurnýjun samstarfssamnings Fjallabyggðar og hestamannafélagsins Gnýfara 2023.
Erindi hestamannafélagsins Gnýfara er varðar ósk félagsins um endurnýjun á samstarfssamningi við sveitarfélagið var vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð samþykkir að endurnýja samstarfssamning við félagið. Vísað til fyrri umræðu bæjarstjórnar.