Nú er sá árstími þegar sólsetrið er ægifagurt hér á landi. Í dag 11. júlí kemur sólin upp kl. 3:29 og sest kl. 23:34 en í lok þessa mánaðar rís hún kl. 4:31 og sest kl. 22:34 svo það er lag að ná fallegum sólarlagsmyndum út júlí. Vísindavefurinn er með skemmtilegar upplýsingar um sólina og stendur þar á meðal annars að sólin skín vegna kjarnahvarfa sem eiga sér stað í iðrum hennar. Vetniskjarnar renna saman af völdum kjarnahvarfa og helíumkjarni myndast að lokum. Við það losnar gríðarleg orka og brot af henni berst til okkar sem hiti og ljós. Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Af hverju er sólin heit?.

En hvers vegna skyldi hún vera gul? Sólarljósið er í raun og veru hvítt, blandað öllum litum litrófsins. Þegar sólin skín sendir hún ljósgeisla sína til okkar gegnum lofthjúp jarðar. Gastegundirnar í lofthjúpnum valda því að þeir endurkastast á mismunandi hátt og af þessu endurkasti hlýst guli liturinn á sólinni. Þannig virðist sólin gul þegar hún er hátt á lofti en rauðleit við sólarupprás eða sólsetur. Þegar sólin er lágt á lofti,  þarf sólarljósið að ferðast í gegnum þykkara loft og dreifist meira.

Ingvar Erlingsson tók þessar fögru sólarlagsmyndir á Siglufirði 9. júlí 2018.

 

 

 

 

Sólargangur í júlí 2018

Myndir: Ingvar Erlingsson
Skjáskot: Stjörnufræðivefurinn
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir