Á Fiskidaginn mikla verður mikið um að vera í Dalvíkurbyggð eins og verið hefur mörg undanfarin ár.
Eitt af því sem einkennir hátíðina er Fiskisúpukvöldið mikla þar sem íbúar Dalvíkurbyggðar bjóða gestum og gangandi að smakka súpu.
í ár verður það að kvöldi föstudagsins 9. ágúst milli 20:15 og 22:15. Það eru á annað hundrað fjölskyldur sem að taka þátt í Fiskisúpukvöldinu víðs vegar um bæinn, þar sem verður flaggað, stuð og stemming. Tveir logandi kyndlar einkenna þá staði sem boðið er upp á Fiskisúpuna miklu.
Á Dalvík búa hjónin Rúna Kristín Sigurðardóttir og Haukur Arnar Gunnarsson. Þar hafa þau búið síðastliðin 25 ár, ef undanskilin eru 2 ár sem þau bjuggu í Danmörku. Þau eiga 3 börn á aldrinum 20 – 25 ára, eitt barnabarn og annað á leiðinni.
Rúna er Akureyringur að uppruna, en Haukur Ólafsfirðingur, sem flutti 6 ára gamall til Dalvíkur. Rúna vann hjá Primex á Siglufirði frá 2013 til 2015 og kunni því mjög vel, nema hvað annar veturinn var mjög snjóþungur og hún fékk nóg af akstrinum á milli Dalvíkur og Siglufjarðar í snjóþyngslunum. Nú starfar Rúna hjá Dalvíkurbyggð sem launafulltrúi, og er einnig í stjórn björgunarsveitarinnar.
Haukur er viðskiptastjóri á þjónustusviði Marel á Dalvík, auk þess hefur hann starfað með björgunarsveitinni í 35 ár og verið formaður sveitarinnar í “allt of mörg ár” eins og hann orðaði það kíminn í viðtali við Trölla á dögunum.
Marel er stórt fyrirtæki, með yfir 6.000 starfsmenn í meira en 30 löndum, og um 700 starfsmenn á Íslandi, flestir í höfuðstöðvunum í Garðabæ. Á Dalvík eru 4 starfsmenn Marel á skrifstofu og litlu þjónustuverkstæði, og 4 á Akureyri.
Marel er einn af stærstu styrktaraðilum Fiskidagsins og hefur verið styrktaraðili í 16 ár.
Þau Rúna og Haukur sjá um “Marelsúpuna” á súpukvöldinu, en það er auðvitað “besta súpan í bænum” að þeirra sögn. Í ár verða þau með Marelsúpuna í 7. skiptið, en nú á nýjum stað, þar sem þau fluttu sig um set á Dalvík fyrir fáeinum mánuðum. Nú verður Marelsúpan á planinu við heimili þeirra Hauks og Rúnu í “Norðanbænum”, við Ægisgötu 6, en í kringum Fiskidaginn fá götur Dalvíkur ný nöfn, og mun Ægisgatan heita Íslaxasíldgata yfir hátíðina! Þar verður líka tónlistarmaðurinn Ari í Árgerði Baldursson til að skemmta gestum og gangandi.
Upphaf Marelsúpunnar var þannig að haldin var samkeppni meðal starfsmanna Marel, og fór Júlli “Fiskidagskóngur” suður til að velja bestu súpuna. Kokkurinn hjá Marel gerir súpuna sem svo er send norður, og má gera ráð fyrir allt að 240 lítrum af Marelsúpu í ár!
Allir eru velkomnir að koma og smakka Marelsúpuna, og sama gildir um alla hina súpustaðina á súpukvöldinu. Í fyrra gaf Marel 600 sundbolta í sundlauginni á Dalvík, en gestir súpukvöldsins hjá Rúnu og Hauki fengu svo sólgleraugu, húfur og fleira dót. Í ár verður einnig glaðningur fyrir börnin, en ekki liggur fyrir hvað það verður í þetta skiptið, það verður bara að koma í ljós.
Það verður nóg um að vera hjá þeim hjónum í tengslum við Fiskidaginn mikla, því auk þess að sjá um Marelsúpuna eru þau bæði í björgunarsveitinni, hann formaður og hún í stjórn, en björgunarsveitin sér um risa-flugeldasýninguna sem einkennir Fiskidaginn, og einnig starfa björgunarsveitarmenn við gæslu á svæðinu frá morgni og fram á nótt.
Gestkvæmt er líka hjá þeim hjónum eins og mörgum öðrum Dalvíkingum, því a.m.k. 10 starfsmenn Marel koma að sunnan og nokkrir frá útlöndum. Einnig hafa fyrrverandi starfsmenn Marel oft komið á Fiskidaginn, jafnvel verðandi starfsmenn koma, því fyrir skemmstu var einmitt einn starfsmaður Marel ráðinn til fyrirtækisins á Fiskidaginn mikla. Margir viðskiptavinir Marel koma líka á Fiskidaginn mikla.
Fiskidagurinn er orðinn eins konar önnur jól hjá Dalvíkingum því þá er bærinn allur tekinn í gegn, fólk lagar til í kringum sig og skreytir, einnig er auðveldara fyrir ættingja og vini að komast milli landshluta á Fiskidaginn en seinnipart desember, sem oft getur verið snjóþungur eins og landsmenn vita. Á Fiskidaginn mikla er aftur á móti alltaf gott veður og þó eitt árið hafi rignt á Súpukvöldinu fór alveg jafn mikil súpa í það skiptið og hin árin, og allir voru glaðir og kátir. Börnin eru líka ánægð með Fiskidaginn og tala gjarnan um það.
Trolli.is mun flytja fréttir frá hátíðinni og FM Trölli 103.7 verður “Fiskidagsútvarpið”, með beinar útsendingar frá Dalvík alla Fiskidagshelgina og fylgist með undirbúningi súpukvöldsins auk þess að líta við á nokkrum súpustöðum og taka fólk tali. Aðalstudio FM Trölla verður í Menningarhúsinu Bergi yfir hátíðina. Fylgist með FM Trölla á FM 103.7 MHz.
FM Trölli næst á FM 103.7 á Tröllaskaga og í Skagafirði, 102.5 á Hvammstanga og nágrenni og auðvitað um allan heim á vefnum trolli.is
Hægt er að hlusta á þáttinn út um allan heim með því að smella á hlusta efst á síðunni eða hér: Hlusta
Minnum sjómenn og aðra með takmörkuð netsambönd á skip.trolli.is