þann 6. maí ár hvert er megrunarlausi dagurinn (International No Diet Day) er alþjóðlegur baráttudagur gegn megrun, átröskunum og fordómum vegna holdafars. Árið 1992 stofnaði Mary Evans Young, fyrrum átröskunarsjúklingur, International No Diet Day til þess að vekja athygli á skaðlegum áhrifum útlitsdýrkunar og mismununar í garð þeirra sem falla utan hins viðurkennda ramma um æskilegan líkamsvöxt. Síðan þá hefur skipulögð dagskrá verið haldin víða um heim árlega þann 6. maí til þess að vekja athygli á þjáningum sem hljótast af þráhyggju um grannan vöxt og almennri andúð á fitu. Á þessum degi eru allir hvattir til þess að láta af viðleitni sinni til þess að grennast, þó ekki væri nema í einn dag, og leyfa sér að upplifa fegurð og fjölbreytileika mismunandi líkamsvaxtar og sjá fyrir sér veröld þar sem megrun er ekki til, þar sem hvers kyns líkamsvöxtur getur verið tákn um hreysti og fegurð og mismunun vegna foldarfars þekkist ekki.

Á þessum degi viljum við:

  • fagna margbreytilegum líkamsvexti af öllum stærðum og gerðum
  • minna á rétt ALLRA til heilbrigðis, hamingju og velferðar óháð líkamsvexti
  • lýsa yfir opinberum frídegi frá hugsunum um mat, megrun og líkamsvöxt
  • vekja athygli á lítt þekktum staðreyndum um megrun, heilsu og holdafar
  • minna á hvernig megrun og stöðug krafa um grannan vöxt er samfélagsleg atlaga gegn konum
  • minnast fórnarlamba átraskana og hættulegra megrunaraðferða
  • berjast gegn andúð á líkamsfitu og fordómum vegna vaxtarlags.

Upplýsingar og mynd: af netinu