Þetta ár hefur verið gjöfult og gestkvæmt á Síldarminjasafninu en samkvæmt nýjustu tölum hafa alls 27.700 gestir lagt leið sína á safnið, það sem af er ári. Stærstur hluti þeirra sem heimsækja safnið eru erlendir gestir eða um 78%.

Mikil starfsemi hefur verið í gangi og alls hafa tæplega 460 skipulagðar leiðsagnir farið fram og 62 síldarsaltanir hafa verið á planinu við Róaldsbrakka þetta sumarið. Þetta er því metár hjá Síldarminjasafninu, sem er afar gleðilegt, enda safnið einstaklega vel úr garði gert og mikið aðdráttarafl fyrir gesti.

Að sögn Anitu Elefsen safnstjóra Síldarminjasafnsins þá fara nú vetrarverkefnin að taka við, ,,þegar ferðafólki fækkar, snúum við okkur að skráningu safnkosts, rannsóknum og vinnu við sýningar safnsins, áframhaldandi uppbyggingu Salthússins, vinnu við ljósmyndasafnið okkar, sem telur um 200.000 ljósmyndir og nýjan vef og svona má lengi áfram telja.“ Anita segir enn fremur að á safninu sé aldrei dauð stund og engir tveir dagar eins, sem er akkúrat það sem gerir safnastarfið svo frábært.

Á forsíðumynd eru þau Daníel, Edda og Aníta.

Mynd/Sigríður Ingvarsdóttir
Heimild/ af vef Fjallabyggðar