Á Síldarævintýrinu fyrir þó nokkuð mörgum árum síðan hitti ég hana Stínu Bjarna (og Erla Guðfinns vinkona hennar var auðvitað ekki langt undan) á torginu fyrir framan fiskbúðina og við áttum spjall saman, en hana Stínu hafði ég þá ekki hitt síðan ég rakst á hana fyrir ótal mörgum árum vestur á Ísafirði þar sem hún hefur búið um árabil. Ég spurði þær stöllur hvort verið gæti að einhverjar gamlar myndir væru til frá þessum frábæra tíma sem við gerðum út saman á því herrans ári 1980.
„Skulum athuga það“ var svarið, en ég leyfði mér bara að vona hið besta í þeim efnum.
Nokkru síðar veitti ég því alveg sérstaka athygli þegar ég tæmdi póstkassann að þar var umslag sem var handskrifað utan á og með frímerki upp á gamla mátann, en ekki nein vélstipluð leiðindi frá einhverjum bankanum, skattinum eða Sýsla. Ég varð auðvitað forvitinn og viti menn, þetta var vissulega skemmtilega sortin. Upp úr umslaginu komu nokkrar ljósmyndir ásamt gulum miða sem á stóð…
Sæll Leó.
Hér koma loksins myndirnar, held að ég eigi einhvers staðar fleiri, en þær koma þá seinna.
Kær kveðja… – Stína Bjarna.
Þetta var góð sending því þarna voru nokkrar myndir síðan ég, Biggi og Sturlaugur fengum til liðs við okkur eðalvinkonurnar Erlu Guðfinns og Stínu Bjarna í Miðaldamenn þess tíma. Þriggja manna hljómsveit plús tvær söngkonur var eitthvað sem var allt öðruvísi en það sem aðrir voru að bjóða upp á. Upphaflega stóð til að Bjössi Sveins yrði líka í söngvarahópnum, en hann guggnaði því miður á síðustu metrunum. En engu að síður og fyrst og fremst var þetta skemmtilegur tími sem mun aldrei gleymast.
Það var hann Steingrímur Kristinsson sem tók myndirnar tvær hér að ofan, en það kom til vegna fyrirhugaðs viðtals okkar við bæjarblaðið Siglfirðing. Á þessum tíma var Birgir Ingimarsson trommari og verðandi prentari í læri hjá Sigurjóni Sæmundssyni í Siglufjarðarprentsmiðju. Umrætt blað var í undirbúningi og fyrirséð að það væri svolítið pláss laust. Birgir hafði snar handtök og hafði samband við einn aðal aðstandanda blaðsins og spurði hvort ekki væri áhugi á að nýta þetta afgangspláss undir stutt viðtal við okkur Miðaldamennina sem vorum um þær mundir tíu ára. Það var slegið með það sama, Steingrímur myndi sjá um myndatöku og umræddur myndi síðan sjá um að taka viðtalið. Steingrímur mætti og tók fullt af skemmtilegum myndum, en ekkert heyrðist frá „viðtalsmanninum“. Það var komið hættulega nálægt áætluðum útgáfudegi þegar Birgir hafði aftur samband og spurði út í málið.
Uss, ég hef bara engan tíma, ég var líka alveg búinn að gleyma þessu, getið þið ekki bara reddað þessu sjálfir.
Það var auðvitað ekkert mál að bjarga því og eiginlega kærkomið tækifæri til að skjóta nokkrum laufléttum skotum á aðal samkeppnisaðilann í bransanum í leiðinni.
Ég var settur niður við gömlu ritvélina mína sem reyndist mér svo vel í fjórða bekk í Gaggó, og útkoman fer hér á eftir…
„Það var nú á dögunum að blaðamaður Siglfirðings barði að dyrum á gömlum síldarbrakka niður á eyri, þeim er kenndur er við Sigfús Baldvinsson. Upp var lokið og inni fyrir dyrum var hljómsveitin Miðaldamenn að undirbúa æfingu. Erindi blaðamanns ásamt ljósmyndara var að eiga við hópinn viðtal var vel tekið og settu menn sig í blaðamannslegar og hljómsveitalegar stellingar og viðtalið hófst.
Hve gömul er hljómsveitin?
Hljómsveitin var stofnuð seint á árinu 1970 og er því tíu ára í ár.
Þetta er býsna langur tími hafa ekki orðið miklar mannabreytingar á tíu árum?
Jú, mannabreytingar hafa orðið nokkrar, en upphaflega er þessi hljómsveit stofnuð af Bjarka Árnasyni, Þórði Kristinssyni, Magnúsi Guðbrandssyni og Sturlaugi Kristjánssyni. Hún var stofnuð eins og áður segir 1970 eingöngu vegna tilkomu Hjóna og paraklúbbsins sem varð til sama ár. Það ár og þau næstu á eftir léku Miðaldamenn á dansleikjum klúbbsins og nokkrum árshátíðum og þorrablótum. 1974-75 lék Geirharður Valtýsson með hljómsveitinni og þarf vart að kynna þann ágæta mann frekar. Birgir Ingimarsson byrjaði 76 og Leó Ólason 78. Guðmundur Ragnarsson og Selma Hauksdóttir voru með sumarið 79, en núverandi meðlimir eru þeir Birgir, Leó og Sturlaugur ásamt Erlu Guðfinnsdóttur og Kristínu Bjarnadóttur, sem eru alveg glænýjar í bransanum.
Þetta er heillangur annáll, en það er ekki vissum annmörkum háð að vera mikið að taka nýja menn (kvenmenn) í hljómsveitina sem hafa aldrei áður komið nálægt tónlistarflutningi af þessu tagi fyrir ykkur sem eruð búnir að vera lengur í þessu? Er ekki ýmislegt sem fólk þarf að kunna fyrir sér áður en það fer að koma kannski reglulega fram á t.d. dansleikjum?
Jú það er nokkuð rétt. Við strákarnir höfum eiginlega rekið nokkurs konar skóla, eða öllu heldur söngskóla síðustu tvö ár, en það má segja að við höfum útskrifað einn nemanda í fyrrra og það er gott að vita að sá nemandi hefur komist út í atvinnulífið svona tónlistarlega séð. Annars er ýmislegt sem þessar dömur sem hafa sungið með okkur þurfa að kunna fyrir sér. Við höfum reynt að segja þeim til eftir því sem við höfum vit til, en það er þó sennilega fleira sem aðeins getur komið með æfingunni. Það er gífurlega mikil vinna fólgin í því að æfa upp nýtt prógram, svo ekki sé talað um ef á að æfa upp nýliða í leiðinni. Þeir eru skiljanlega ekki búnir að ná þeim æfingarhraða sem æskilegur er, en þetta hefst allt áður en yfir lýkur. En það er síðan annað mál að við ætlum okkur ekki í framtíðinni að verða nein uppeldisstofnun fyrir aðrar hljómsveitir.
Nú eru þrjár hljómsveitir starfandi í bænum, hefur það ekki orðið til þess að allar hafa haft frekar lítið að gera?
Nei, það er okkar skoðun að best sé að hafa sem mesta samkeppni, hún veitir aðhald og verður til þess að meira verður lagt í að gera það sem upp á er boðið sem best úr garði. Við vitum mörg dæmi þess að hljómsveit sem hefur einokunaraðstöðu í sínu heimaplássi gæti gert það betra eins og sagt er, en á svona stöðum er það vitað mál að fólk hefur ekkert annað að fara, og varla til neinna annarra að sækja. Við höfum reynt að halda t.d. ekki fleiri dansleiki hérna heima en svo að fólk fái ekki leið á okkur. Einu sinni til tvisvar að jafnaði er hæfilegur skammtur að okkar mati.
Nú eruð þið þekktir fyrir að gera stundum meira en að halda bara dansleiki. Þið hafið staðið fyrir því að fá í bæinn þekkta skemmtikrafta. Er það gert til að hressa upp á fjárhaginn?
Fjárhagsleg útkoma hefur verið verri þegar upp hefur verið staðið í þau skipti sem við höfum farið út í slík ævintýri. Skemmtikraftur kostar með ferðum og uppihaldi allt upp í kvartmilljón, sem er að vísu ekki stór upphæð í dag en nógu stór samt. Þetta höfum við reynt að gera einu sinni til tvisvar á ári til þess að hressa upp á ballbransann. Þau eru nógu mörg þessu venjulegu böll til þess að við sjáum ekki í það þó við fórnum hugsanlega jákvæðri fjárhagslegri afkomu í eitt og eitt skipti. Hún er hvort sem er yfirleitt ekki svo stór. Það verður að líta á þetta meira sem hobbý eða tómstundagaman. Þeir sem ætla sér að verða ríkir á því að spila, endast yfirleitt ekki lengi.
Og með þessum orðum kveðjum við þetta unga fólk og óskum Miðaldamönnum til hamingju með afmælið“.
Um vorið 1980 setti Leikfélag Siglufjarðar upp leikritið „Sá sem stelur fæti er heppinn í ástum“ eftir Dario Fo, en þar fóru með aðalhlutverkin Birgir Ingimarsson, Laufey Elefsen, Stefán Friðriksson og Ingi Hauksson. Björn Sveinsson fór með hlutverk styttunnar sem stóð einfætt á stalli sínum mest allan tíman og sagði hann að þetta hefði verið léttasta rullan sem hann hafi þurft að læra fyrir nokkurt leikrit sem hann hafi leikið í, því styttur segja jú aldrei nokkurt einasta orð. Leikstjóri var Geir Rögnvaldsson og æfingar fóru fram á Hótel Hvanneyri. En það var mikið í gangi hjá Leikfélaginu þetta leikárið því í Suðurgötu 10 var æft annað leikrit á sama tíma sem var einnig eftir Dario Fo. Það var „Nakinn maður og annar í kjólfötum“ þar sem Jónas Tryggvason, Þorgeir Reynisson, Jón A. Hinriksson og Harpa Gissurar fóu með aðalhlutverkin. Því leikstýrði Anna Magnúsdóttir.
Ekki veit ég hversu víða leikritin voru sýnd, en „Sá sem stelur fæti“ var í það minnsta sýnt í Hrísey laugardaginn 26. apríl 1980 og Miðaldamenn, Erla og Kristín héldu síðan uppi stuðinu á dansleik á eftir leiksýningunni sem stóð eitthvað fram á morguninn. Daginn eftir fór síðan stór hluti hópsins á ógleymanlega tónleika með rússneska bassasöngvaranum Ivan Rebroff sem um þær mundir hélt tónleika nokkuð víða um land. Tónleikarnir voru haldnir í íþróttahúsinu á Akureyri og voru hreint ótrúleg upplifun.
Og góðu stundirnar þessi árin svo og þetta sumarið voru fjölmargar. Stundum entust þær alla nóttina og jafnvel fram á næsta dag. Þarna eru þeir Birgir og Sturlaugur enn í banastuði morguninn eftir dansleik í Hrísey, en hljómsveitin spilaði þó nokkrum sinnum á þessum frábæra stað.
Fjölmargar sögur væri hægt að segja frá þessu tímabili, en líklega eiga flestar þeirra lítið erindi fyrir almenningssjónir (eru sem sagt ekki birtingarhæfar) og eru því væntanlega best geymdar sem minningar hjá þeim sem upplifðu þær.
Heimildir: Dagur, Siglfirðingur, Kristín Bjarnadóttir, Birgir Ingimarsson, Björn Sveinsson, ásamt þeim sem þetta ritar.
Ljósmyndir: Mynd 1 og 2: Steingrímur Kristinsson. Mynd 3: Úrklippa úr bæjarblaðinu Siglfirðing. Mynd 4, 5 og 6: Ljósmyndari ókunnur. Mynd 7: Kristín Bjarnadóttir. Mynd 8, 9, 10 og 11: Ljósmyndari ókunnur. Myndir 4, 6, 7, 8 og 9 eru úr myndasafni Stínu Bjarna.
Leó R. Ólason.