SOMA gefur út Bara eitthvað lag 
…og fyrstu tónleikarnir á næsta leiti 

Hljómsveitin SOMA gefur nú út sitt annað lag frá því að hljómsveitin sneri óvænt aftur fyrr á þessu ári eftir að hafa legið í dvala í rúma tvo áratugi. Lagið verður formlega gefið út á Spotify og öðrum tónlistarveitum fimmtudaginn 23. september kl. 12:00. 

Lagið kallast Bara eitthvað lag og má segja að þar sé örlítið mýkri stemning á bandinu en oft áður, þótt vissulega kraumi hefðbundna SOMA spilagleðin og indíkrafturinn undir yfirborðinu. 

Lagið “Bara eitthvað lag” verður leikið á FM Trölla í dag, í þættinum Tíu Dropar sem er á dagskrá alla sunnudaga kl. 13 – 15.

Eins og þekkt er gerði SOMA garðinn frægan um miðjan tíunda áratuginn og var bandið þekktast fyrir lagið Grandi Vogar II (Má ég gista), sem fyrir löngu er orðið eitt af langlífustu lögum áratugarins. Hljómsveitin hætti skyndilega 1998 og eftir að hafa ekki hist allir saman í ríflega 22 ár ákváðu sexmenningarnir að láta reyna á samstarf á nýjan leik á síðasta ári.  

Í ljós kom að SOMA hafði engu gleymt og fyrsta lag hljómsveitarinnar eftir hlé – Fólk eins og fjöll – fékk góðar viðtökur fyrr á árinu. Samkomutakmarkanir hafa hins vegar sett strik í reikninginn hvað varðar tónleikahald, en nú fer loks að sjá fyrir endann á því – fyrstu tónleikarnir hafa verið bókaðir 29. október í Ölveri.