Áhrif skjátíma á heilsu barna og ungmenna var til umræðu á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um félags- og heilbrigðismál í Stokkhólmi á dögunum. Á fundinum kom fram að meirihluti barna og ungmenna á Norðurlöndum eyðir meira en 3 klukkustundum á dag fyrir framan skjá og í sumum hópum allt að 5-6 klukkustundum. Norrænu ráðherrarnir hafa miklar áhyggjur af þeim neikvæðu áhrifum sem aukin skjánotkun og stafrænir miðlar geta haft á heilsu og vellíðan barna og ungmenna. Vilji er til að auka þrýstinginn á stóru samfélagsmiðlafyrirtækin um að axla meiri ábyrgð og grípa til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum mikils skjátíma.

„Mikill skjátími stelur athygli og tíma frá öðru sem skiptir miklu máli fyrir þroska og heilsu barna og ungmenna eins og hreyfingu, lestri, svefni og samverustunda með öðrum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem sat fundinn

„Við þurfum að ræða afleiðingar þessa og hvaða ábyrgð stóru samfélagsmiðlafyrirtækin bera á aukinni vanlíðan barna og ungmenna. Við ættum að þrýsta meira á fyrirtækin svo þau grípi til aðgerða. Ég veit að foreldrar hafa miklar áhyggjur af þróuninni. Foreldrar bera mikla ábyrgð en eiga ekki að bera hana einir.“

Samfélagsmiðlarisarnir verði að axla ábyrgð

Ráðherrarnir ræddu á fundinum um sameiginleg verkefni á norrænum vettvangi til að auka þekkingu á áhrifum mikils skjátíma. Þeir vilja að Norðurlöndin nálgist málefnið á breiðum grunni með þátttöku allra hlutaðeigandi hagsmunaaðila, þar á meðal foreldra, skóla, heilbrigðis- og velferðarstofnana, og frjálsra félagasamtaka. Einnig að þrýst verði á að samfélagsmiðlarisarnir beri ábyrgð.

Með miklu magni upplýsinga, skemmtunar og samskipta sem boðið er upp á á netinu séu stóru samfélagsmiðlafyrirtækin í einstakri stöðu til að hafa áhrif á hegðun og venjur notenda. Þess vegna sé mikilvægt að þau taki ábyrgð sína alvarlega og stuðli að heilbrigðari og minni notkun miðla sinna.

Í tengslum við fundinn sameinuðust norrænu ráðherrarnir um grein undir yfirskriftinni Samfélagsmiðlarisarnir verða að axla ábyrgð.

Fundinn sóttu félags- og heilbrigðismálaráðherrar Finnlands, Danmerkur, Noregs, Íslands, Færeyja og Álandseyja ásamt framkvæmdastjóra og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ráðherrarnir á fundinum. 

Aðsent.