Hlutfall almenns sorps frá Menntaskólanum á Tröllaskaga hefur minnkað verulega síðustu ár.
Í fyrra var það um fjórðungur af heildarþyngd sorpsins en 75% árið 2017. Þá hefur heildarmagn úrgangs sömuleiðis minnkað mikið undanfarin ár eða úr hálfu öðru tonni 2017 niður í 250 kg. í fyrra.
Sorp hefur verið flokkað í skólanum frá byrjun en fyrir fimm árum var sérstökum flokkunartunnum komið fyrir á tveimur stöðum í skólahúsinu og jók það skilvirkni verulega. Mestu munar þó um að sorpgeymslum skólans var læst í október á síðasta ári en áður gat hver sem er losað sig við úrgang í sorptunnur skólans. Við það minnkaði almennt óflokkað sorp um helming.
Allt rímar þetta við Græn skref í ríkisrekstri en MTR hefur lokið öllum fimm skrefunum. Græn skref miða að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnana og efla umhverfisvitund starfsmanna. Grænt bókhald er árlega tekið saman og skilað til Umhverfisstofnunar. Græna bókhaldið heldur utan um þær breytingar og árangur sem skólinn hefur náð í að draga úr umhverfisáhrifum rekstrarins.
Starfsfólk er einnig mjög meðvitað um umhverfismál. Þau sem ekki ganga eða hjóla til vinnu sameinast í bíla og mörg aka á rafmagnsbílum. Þá vegur þungt að kennarar vinna heima 2 til 3 daga vikunnar og þurfa því ekki að ferðast neitt þá daga.
Á tunnunni fyrir almennt sorp er límmiði sem vekur fólk til umhugsunar. Á honum stendur:
Er hægt að flokka þetta? Spurðu vin.
Ljósm. GK.