Laugardaginn 26. ágúst var 100 ára afmæli Tunguréttar fagnað.

Í tilefni af afmælinu var afhjúpaður minnisvarði um gangnamanninn, en er það fyrsti minnisvarðinn á Íslandi sem tileinkaður er gangnamanninum.

Margt var um manninn eins og gengur og gerist þegar Tungurétt er annars vegar, Þórarinn Hjartarson fór yfir sögu réttarinnar og gangna í Svarfaðar og -Skíðadal, sr. Oddur Bjarni fór með vel valinn orð og tók lagið, gangnamenn tóku svo lagið af þessu tilefni.

Í lok athafnar var svo kaffihlaðborð að hætti kvennafélagsins Tilraunar, en ennþá hefur enginn farið svangur frá hlaðborði á þeirra vegum. Dalvíkurbyggð óskar bændum og velunnurum Tungnaréttar innilega til hamingju með 100 árin og vonast til þess að Tungurétt muni þjóna Byggðinni um ókomna tíð.

Gangnavísan Skíðadalsstemning sem er alltaf sungin í göngum var auðvitað tekinn og fylgir hún hér með til heiðurs gangnamönnum. 

Skíðadalsstemning

Sól á himni hlý
hellir geislum um víðan fjallasal.
Góðveðurs gullin ský
glitra yfir Skíðadal.
Hraðstreymin flúð og foss
fjörugt kliða við gróin tóftarbrot.
Hýrna við kveðjukoss
Krosshóll, Stafn og Gljúfrárkot.
Dalir og flóðlýst fjöll
faðminn breiða mót hverjum gömlum vin.
Jökulsins marlit mjöll
magnar hádagssólarskin.
Ó, öll sú dásemd og dýrð
dregur okkur ómótstæðileg til sín.
Og hvar sem þú bróðir býrð
brosir þessi mynd til þín.

Hljóðnar og hausta fer.
Hjartað lyftist í brjósti gangamanns.
Hásumarblærinn ber
blómailm að vitum hans.
Hugurinn sýnir sér
sauðahjarðir og hestamannaþing,
heyrir að hóað er
hátt í bröttum Almenning.
Hátt yfir fjöll og firrð
flæðir ljósið og sólin stendur kjur.
Standa í stoltri kyrrð
Steingrímsfjall og Ingjaldur.
Ó, öll sú dásemd og dýrð
dregur okkur ómótstæðileg til sín.
Og hvar sem þú bróðir býrð
brosir þessi mynd til þín.

Af himni sígur sól,
sést hve brekkurnar nýja liti fá.
Stend ég á háum hól,
horfi yfir Vesturá.
Rennur æ fleira fé
framan göturnar, koma þeir þá senn
og þar um síðir ég sé
sunnan ríða neðstu menn.
Loks eftir langa bið
lausan taum gef og klárinn tekur sprett.
Karlarnir hlið við hlið
halda norður, út að rétt.
Ó, öll sú dásemd og dýrð
dregur okkur ómótstæðileg til sín.
Og hvar sem þú bróðir býrð
brosir þessi mynd til þín.

  • Hjörtur E. Þórarinsson/Þórarinn Hjartarson.

Myndir/Friðrik Vilhelmsson
Heimild/Dalvíkurbyggð