Menntaskólinn á Tröllaskaga varð efstur í flokki lítilla vinnustaða í keppninni Reddum málinu, á vegum Samróms, sem lauk í gær.

Fulltrúar skólans tóku við viðurkenningu af því tilefni úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar Forseta Íslands á Bessastöðum í gær. Vakti það athygli að starfsfólk skólans, sem er dreift um Eyjafjörðinn, í Reykjavík og erlendis, las hvert af sínum fjarvinnustað en spjallaði saman um verkefnið á netinu og tóku því þátt saman þó að þau væru á sitthvorum staðnum. Þannig er fólk vant að vinna dagsdaglega svo að það lá beinast við.

Þátttaka starfsmanna var að frumkvæði Margrétar L. Laxdal íslenskukennara og Unnar Hafstað stærðfræðikennara en flestir starfsmenn tóku þátt og lásu alls 42.470 setningar.

Reddum málinu er átak sem hefur það að markmiði að kenna snjalltækjum íslensku. Til þess þarf gríðarlegt magn af upptökum þar sem allskonar fólk les margvíslegan texta. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að tölvur og snjalltæki skilji íslensku. Sífellt fleiri tæki, bílar og jafnvel heimilistæki eru nú raddstýrð og hingað til hefur orðið að hafa samskipti við þessi tæki á ensku eða öðru erlendu tungumáli.

Mynd samansett. MTR/Trölli.is – Reddum málinu/JVH