Menntaskólinn á Tröllaskaga er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir að fara nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði. Skólinn er tilnefndur í flokknum framúrskarandi skólastarf ásamt Dalskóla, Leikskólanum Rauðhóli, Pólska skólanum og Tónskóla Sigursveins.
Verðlaun verða einnig veitt í flokkunum framúrskarandi kennsla og framúrskarandi þróunarverkefni. Þá verða sérstök hvatningarverðlaun kynnt við afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna sem áformað er að verði á Bessastöðum föstudaginn 13. nóvember næstkomandi.
Markmið Íslensku menntaverðlaunanna er að vekja athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg umbóta í menntun.
Það eru embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sem standa að Íslensku menntaverðlaununum.