Þrettándagleði var haldin á Siglufirði í dag, þriðjudaginn 6. janúar, þegar bæjarbúar og gestir komu saman til að kveðja jólin með hefðbundnum hætti.
Dagskrá Þrettándagleðinnar hófst með blysför frá Ráðhústorgi klukkan 17:30 og lá leiðin að brennu á Suðurtanga. Slökkvilið og lögregla fylgdu göngunni líkt og fyrri ár. Við brennuna fór fram flugeldasýning á vegum Björgunarsveitarinnar Stráka sem setti glæsilegan svip á kvöldið.
Í beinu framhaldi af brennunni var boðið upp á barna- og fjölskylduskemmtun í formi grímuballs á Kaffi Rauðku. Skemmtunin var á vegum Kiwanis og var ætluð fólki á öllum aldri.
Þrettándagleðin á Siglufirði hefur um árabil verið vinsæll liður í mannlífinu og kærkomið tækifæri til að koma saman, njóta samveru og ljúka jólahátíðinni á hátíðlegan og skemmtilegan hátt.
Myndir: Facebook / Slökkvilið Fjallabyggðar







