Aðfaranótt sunnudags voru um 70 viðbragðsaðilar að störfum í Ólafsfirði og tilkynnt var um vatn í 18 húsum og tjón talið töluvert.
Þá mynduðust stór lón í bænum sem létt var á.
Viðbragðsaðilar frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins tóku þátt í björgunaraðgerðum.
Í gærkvöldi birtist eftirfarandi færsla á facebooksíðu Slökkviliðs Fjallabyggðar.
“Undanfarinn tæpan sólarhring hafa slökkviliðsmenn hjá Slökkviliði Fjallabyggðar, starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Fjallabyggðar, Björgunarsveitin Strákar , Björgunarsveitin Tindur og Lögreglan á Norðurlandi eystra staðið í ströngu á Ólafsfirði vegna gífurlegrar rigningar sem var á svæðinu í gærkvöldi, nótt og í dag. Auk þeirra komu til aðstoðar slökkviliðsmenn frá Slökkviliði Dalvíkur, Slökkviliði Akureyrar auk björgunarsveita úr öllum Eyjafirði.
Menn muna vart eftir svo mikilli rigningu með jafn mikilli ákefð og var. Aðgerðir hófust skömu fyrir klukkan 23 í gærkvöldi og á níunda tímanum í kvöld var hafist handa við frágang á slökkvistöð.
Um 70 viðbragðsaðilar tóku þátt í aðgerðum á meðan þær stóðu yfir. Þegar ástandið var sem verst í nótt unnu ofangreindir aðilar þrekvirki við að reyna að lágmarka það tjón sem varð.”
Myndir frá Maríu Petru Björnsdóttur
Enn og aftur allt á floti á Siglufirði
Myndir frá Slökkviliði Fjallabyggðar
Myndir/ María Petra Björnsdóttir og Slökkvilið Fjallabyggðar