Laugardaginn 23. janúar drifum við hjónin okkur í skoðunarferð á vesturströnd Kanarí. Við köllum svona örferðalög deit daga, þá brjótum við upp hversdagslífið og förum í styttri eða lengri ökuferðir og njótum eyjarinnar.

Okkur áskotnaðist ekki alls fyrir löngu bókin “Komdu með til Kanarí” eftir Snæfríði Ingadóttur. Höfum við verið að glugga í hana og var hún með í för og er ætlunin að skoða þá staði sem hún bendir á í bókinni. Mælum við með að þeir Íslendingar sem sækja Kanarí heim fái sér þessa bók og skipuleggi ferðalagið út frá sínum áhugamálum, af nógu er að taka. Einnig hefur Snæfríður gefið út samsvarandi bók um Tenerife.

Í þetta sinn var ferðinni heitið að náttúruundrinu Los Azulejos de Vegeguera, þessi undurfagra náttúruperla myndaði litfögur jarðlög í eldgosi og þarna má sjá allskonar tóna af grænum, gulum og rauðum litum.

Þangað höfðum við komið einu sinni áður og vorum þá nánast þau einu á ferð, en að þessu sinni voru heimamenn eins og maurar upp um allar fjallshliðar, en vinsælt er meðal þeirra að ganga upp að litlum baðstað á fjallinu sem nefnist Carlocos Azules.

Þar sem ekkert bílastæði var laust meðfram veginum ákváðum við að koma aftur síðar og skella okkur að skoða kaktusagarðinn sem er aðeins norðan við Los Azulejos de Vegeguera.

Garðurinn heitir Cactualdea Park og er stærsti kaktusagarður Evrópu. Það voru fáir þar á ferð og urðum við aðeins vör við tvo aðra gesti og nutum þess að ganga þar um og skoða fugla- og dýralíf og þennan magnaða garð. Garðurinn er þannig uppbyggður að kaktusunum er blandað saman svo úr verður kaktusaskógur hinna ýmsu kaktusa tegunda.

Þegar við áttum leið þar um nutum við þess að sjá sambland ljóss og skugga í kaktusaskóginum og framandi fuglar skutust þar um ásamt litfögum hönum sem göluðu af hjartans list.

Gengum við hring um garðinn eftir þar tilgerðum göngustíg og skoðuðum einnig eftirgerð af fornum hýbýlum frumbyggja eyjunnar sem lifðu í hellum.

Að öllu jöfnu er hægt að fá veitingar í garðinum en vegna covid-19 var allt lokað og létum við okkur nægja í þetta sinn að fá okkur vatn þegar við keyptum okkur inn í garðinn.

Þetta var virkilega skemmtilegur dagur og erum við þegar farin að leggja plön fyrir næsta deit dag.