Þann 20. júní var haldin tónlistarmessa í Árneskirkju á Ströndum.

Tilefni Tónlistarmessunnar var að vígja orgel sem kirkjunni var gefið af Ágústi H Guðmundssyni og konu hans Guðrúnu Gísladóttur. Ágúst var sonur Guðmundar Hafliða Guðjónssonar orgelleikara frá Kjörvogi í Árneshreppi. Ágúst lést úr MND sjúkdóminum 1. janúar s.l. Dagur MND er einmitt þennan dag 20. júní.

Sóknarprestur Árneskirkju Sigríður Óladóttir og Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps þökkuðu góða gjöf og töldu hana mikla lyftistöng fyrir samfélagið.

Séra Hjálmar Jónsson sá um helgihald eins og honum einum er lagið,  hélt ræðu fór með vísur og ljóð og brá sér í hlutverk kynnis. Einvalalið tónlistarmanna var mætt á svæðið og sveif léttur og fallegur andi yfir.

Þarna komu fram Guðmundur sjálfur á orgel, Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Gunnar Kvaran á selló, Guðmundsdóttir (Védís dóttir Guðmundar Hafliða) á þverflautu, eða  G-5 hópurinn eins og Guðmundur kynnti þau.

Þetta var hátíðleg og falleg stund eins og dagskráin ber með sér.

Guðmundur Hafliði sagði í lok athafnar að hin eina sanna Regína frá Gjögri sem var fréttaritari hreppsins á sínum tíma hafi fjallað skemmtilega um tónlistarviðburð sem var haldin í gömlu kirkjunni. Guðmundur las upp skemmtilega gagnrýni hennar á viðburðinn.
Þegar ég svo vék mér að Guðmundi og spurði hvort ég mætti segja frá viðburðinum á  trölli.is sagði hann kíminn, “taktu bara Regínu á þetta” og rétti mér dagskrána.Undirrituð telur vænst að láta öðrum það eftir enda engin leið að komast með tærnar þar sem Regína hafði hælana.
Þess ber þó að geta að kirkjan var þétt setin og var gerður góður rómur að fallegum og fáguðum flutningi listamannanna á þessum klassísku tónverkunum.

“Að sama skapi töldu listamenn kirkjuna einstakt tónlistarhús sem nú ætti svo frábært hljóðfæri sem orgelið væri. “ Bara hringja í okkur listamenn sagði Guðný Guðmundsdóttir glöð í bragði og við komum.

Fyrir rúmu ári hittust séra Hjálmar og Guðmundur Hafliði Guðjónsson við útför Huldu Jónsdóttur, móður Vilborgar og móðursystir Guðmundar. Það rann upp fyrir þeim að þeir höfðu aldrei messað saman. Ákváðu þeir því að bæta úr því áður en þeir yrðu eldgamlir eins og Guðmundur orðaði það

Myndir/ Vilborg Zoega Traustadóttir