Bikarmót IFBB í fitness fór fram laugardaginn 17. nóvember í Háskólabíói og alls voru 62 keppendur skráðir til keppni.
Góð þátttaka var í flestum keppnisflokkum og var sérlega ánægjulegt að sjá góða mætingu í byrjendaflokkinn í módelfitness og wellnessflokkurinn fer ört stækkandi.
Ungur Siglfirðingur Pálmar Hafþórsson tók þátt í mótinu í flokknum Sportfitness karla +178 og stóð sig með prýði, náði hann fjórða sæti. Pálmar er sonur þeirra Ríkeyjar Sigurbjörnsdóttur og Hafþórs Kolbeinssonar.
Á facebook-síðu Pálma segist hann meðal annars hafa komið bæði stærri og skornari til keppni en fyrir ári síðan og þakkar sínum nánustu fyrir allan þann stuðning sem hann fékk á undirbúningstímanum sem var bæði langur og krefjandi.
Haldin eru tvö mót á ári sem eru á vegum IFBB, alþjóðasambands líkamsræktarmanna. Íslandsmót um páska og Bikarmót í nóvember.
IFBB er íþróttasamband. Það er aðili að SportAccord(Heimssamtökum alþjóðaíþróttasambanda), heimsleikunum (IWGA), UNESCO, ICSSPE og ýmsum öðrum virtum alþjóðlegum samböndum og er eina viðurkennda alþjóðlega íþróttasambandið í heiminum sem heldur vaxtarræktar- og fitnessmót og starfar í samræmi við reglur WADA (World Anti-doping Agency).
Heimild: Fitness.is
Myndir: úr einkasafni