Bændablaðið hefur tekið saman meðalhækkun á dilkakjöti yfir landið samkvæmt verðskrám sláturleyfishafa.

Það segir að uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfram að berast.

Nýlega bárust uppfærslur frá Sláturfélagi Suðurlands, Kaupfélagi Skagfirðinga og Sláturhúsi KVH og þegar tekið er tillit til þeirra hefur meðalverð á landsvísu fyrir kíló af dilkum hækkað um 35,5 prósent frá síðustu sláturtíð.

Þau leiðu mistök urðu að verðskrá ársins 2021 birtist í prentútgáfu Bændablaðsins, með umfjöllun um afurðaverð 2022. Hér birtist rétt og uppfærð verðskrá sláturleyfishafa.

Hæsta meðalverð 754 krónur á kílóið

Samkvæmt útreikningum Bændasamtaka Íslands og er hæsta verð komið í 754 krónur á kílóið, eftir að Sláturfélag Suðurlands birti uppfærslu á sinni verðskrá í síðustu viku. Kaupfélag Skagfirðinga og Sláturhús KVH hafa einnig birt nýlegar uppfærslur og borga næst mest, eða 753 krónur á kíló dilka.

Sláturfélag Vopnfirðinga gaf tóninn í lok júní með meðalverðshækkun upp á 31,4 prósent miðað við lokaverð á síðasta ári. Í ágúst hafa uppfærðar verðskrár borist jafnt og þétt, nú síðast frá Fjallalambi 18. ágúst og þar er hækkunin mest á milli ára eða 43,5 prósent.

Landsmeðaltalshækkun fyrir fullorðið fé hefur einnig orðið svolítil á undanförnum tveimur vikum, eða 14,9 prósent.