Ein og hálf vika er liðin síðan skólahúsi MTR í Ólafsfirði var lokað og öll kennsla og önnur þjónusta við nemendur var flutt í netheima.
Það er samdóma álit kennara skólans að umskiptin hafi gengið vel. Skil nemenda á verkefnum í lok síðustu viku hafi verið svipuð og venjulega, mæting í kennslustundir sé ekki verri en venjulega og jafnvel betri í sumum tilvikum. Einn kennari nefndi að fjarnemar væru meira en áður að hafa samband og leita eftir aðstoð.
Annar hafði orð á því að það væru meiri samskipti við nemendur sem ættu erfitt með samskipti auglitis til auglitis. Sá þriðji sagði að nemendur væru fljótir að laga sig að nýjum vinnubrögðum og hefðu sýnt frumkvæði í að mynda hópa svo þau gætu unnið saman á netinu.
Almennt segja kennarar að nemendur séu duglegir og jákvæðir. Einn orðaði það svo: „Mér persónulega finnst þetta mjög notalegt og ganga vel. Nemendurnir sem ég tala við eru líka að láta mig vita af hreyfingunni sinni og senda mér oftast snap af sér þegar þau eru í útivist, hvort sem það er göngutúr, hlaup, hjólreiðar, gönguskíða- eða vélsleðaferð“.
Hólmar Hákon, kennari á starfsbraut segir að það gangi vel með sína nemendur á brautinni. Þau mæti í tíma og séu að skila vel. Eitthvað vantaði þó uppá dugnaðinn við að koma sér út og hreyfa sig og var þá gripið til þess ráðs að búa til pepphóp á „snapchat“ sem nemendur kalla “Drullaðu´ðérút”.
Mynd: Gísli Kristinsson