Nanna Franklínsdóttir á Siglufirði varð 104 ára þriðjudaginn, 12. maí segir á facebooksíðunni Langlífi.
Hún er fædd í Litla-Fjarðarhorni í Strandasýslu, dóttir Franklíns Þórðarsonar og Andreu Jónsdóttur, sem varð 97 ára. Systkinin voru þrettán og náði ein systirin, Anna, 105 ára aldri, önnur, Aðalheiður, varð 98 ára og Margrét á Siglufirði er orðin 98 ára. Nanna og Margrét eru elstu núlifandi systkinin á landinu, 202 ára.
Hallfríður Nanna Franklínsdóttir, eins og hún heitir fullu nafni, kom til Siglufjarðar haustið 1944 og fékkst við verslunarstörf, fiskvinnslu og fleira. Eiginmaður hennar, Baldvin Guðjónsson sjómaður og verkamaður, dó 1975. Síðustu ár hefur Nanna verið á sjúkrahúsinu á Siglufirði. Vegna takmarkana á heimsóknum söfnuðust nokkrir tugir Siglfirðinga saman fyrir utan sjúkrahúsið og sungu fyrir afmælisbarnið, sem kom út í gluggann og fylgdist með.
Nú er Nanna í þriðja sæti yfir elstu Íslendinga og er elst á Norðurlandi. Sex íbúar á Siglufirði hafa náð hundrað ára aldri. Aðeins Elín Jónasdóttir hefur orðið eldri en Nanna, 104 ára og 288 daga.
Mynd: Steingrímur Kristinsson